Uppbygging: Samkomuhúsið verður endurbyggt í höndum nýrra eigenda.
Uppbygging: Samkomuhúsið verður endurbyggt í höndum nýrra eigenda.
Sandgerði | Fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar samþykktu á fundi bæjarstjórnar að gerast hluthafi í Fasteignafélaginu Fasteign hf.

Sandgerði | Fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar samþykktu á fundi bæjarstjórnar að gerast hluthafi í Fasteignafélaginu Fasteign hf. og ganga til samninga við félagið um sölu á skóla- og íþróttamannvirkjum og samkomuhúsi bæjarins og um viðhald og frágang á þessum byggingum. Fulltrúar minnihlutans greiddu atkvæði á móti.

Fulltrúar bæjarstjórnar hafa um tíma verið í viðræðum við fulltrúa Fasteignafélagsins Fasteignar hf. um aðild að félaginu sem Íslandsbanki, Reykjanesbær og fleiri standa að. Var þessi ráðstöfun samþykkt á sérstökum aukafundi í bæjarstjórn síðastliðinn miðvikudag. Jafnframt var ákveðið að ganga til samninga við félagið um yfirtöku á tilteknum eignum og sérfræðingum falið að yfirfara og sannreyna endanlegan samning.

300 milljónir í bæjarsjóð

Þau drög að samningum sem gerð hafa verið fela það í sér að Fasteign hf. kaupir skólabygginguna í Sandgerði ásamt íþróttahúsi og sundlaug og öðrum mannvirkjum á skólalóð og samkomuhús bæjarins. Samkomuhúsið er í niðurníðslu og mun Fasteign hf. gera það upp og ganga frá lóð. Sömuleiðis mun félagið ráðast í nýframkvæmdir og viðhald á skólamannvirkjunum. Þannig verður framkvæmdum við skólann lokið og gengið frá lóð hans. Gerður verður gervigrasvöllur á skólalóðinni og sett nýtt gólf á sal íþróttahússins. Áætlað er að þessar framkvæmdir kosti Fasteignafélagið rúmar 100 milljónir kr.

Bæjarsjóður leggur 15% af söluandvirði eignanna fram sem hlutafé í Fasteign hf.

Komið hefur fram í bókunum á fundum um málið að gert er ráð fyrir að Sandgerðisbær fái um 300 milljónir kr. við yfirfærslu eignanna til Fasteignar. Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri segir að þeir fjármunir verði notaðir til að greiða upp óhagstæðari lán sem bærinn skuldi, meðal annars vegna Sandgerðishafnar. Sigurður Valur segir að vonir séu bundnar við að við þetta fyrirkomulag fáist betri vaxtakjör og að með þeirri sérhæfingu í rekstri fasteigna sem verið sé að koma á takist betur til um viðhald viðkomandi eigna og það kosti minna.

Aðildin að Fasteign hf. var samþykkt með atkvæðum fulltrúa meirihlutans, Samfylkingar og óháðra og Sjálfstæðisflokks. Fulltrúar Framsóknarflokks og Sandgerðislistans greiddu atkvæði á móti.

Í bókun fulltrúa Framsóknarflokks kemur meðal annars fram að framkvæmdirnar sem ráðist verði í á skólalóð og við samkomuhúsið kalli á aukin útgjöld og auknar skuldir og þeirri skoðun jafnframt lýst að nú þegar sé of langt gengið í því. Bent er á að frá 1998 hafi tekjur sveitarfélagsins aukist um 50% en skuldir um 100%. "Það að selja og endurleigja léttir greiðslubyrði bæjarins tímabundið en til langframa er ávinningurinn enginn," segir í bókun framsóknarmanna.

Fulltrúi Sandgerðislistans segist ekki sannfærður um að samningurinn verði Sandgerðisbæ til hagsbóta. Hann sjái ekki stóran mun á því að eiga eða leigja opinbert húsnæði því í báðum leiðum felist skuldbindingar og útgjöld fyrir bæjarsjóð. Erfitt sé að gera sér grein fyrir því hvor leiðin sé hagkvæmari til lengri tíma litið.

Fulltrúar meirihlutans vísuðu á bug þeim skoðunum sem fram komu í bókunum minnihlutans. Benda þeir á að miklir möguleika séu framundan í að greiða niður lán á næstu árum, eða um og yfir fimmtíu milljónir kr. á ári. Allt tal um skuldaaukningu vegna aukins rekstrar sé byggt á misskilningi eða sett fram til að koma í veg fyrir eðlilega uppbyggingu í Sandgerðisbæ. "Það vekur furðu að bæjarfulltrúi í Sandgerðisbæ leggist gegn öllum framfaramálum og allri uppbyggingu í sveitarfélaginu," segir ennfremur í bókun meirihlutans en þar er vísað til oddvita Framsóknarflokksins.