Flugvirkjar hófu í gær viðgerð á þyrlunni TF-LÍF.
Flugvirkjar hófu í gær viðgerð á þyrlunni TF-LÍF. — Morgunblaðið/Arni Sæberg
ÞYRLA varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli varð fyrir vélartruflunum á leið á strandstað fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar á fjórtánda tímanum í gær og þurfti að snúa við. Átta manns voru um borð og sakaði þá ekki.

ÞYRLA varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli varð fyrir vélartruflunum á leið á strandstað fjölveiðiskipsins Baldvins Þorsteinssonar á fjórtánda tímanum í gær og þurfti að snúa við. Átta manns voru um borð og sakaði þá ekki.

Flugstjórinn lýsti yfir neyðarástandi þegar þyrlan var stödd um 25 sjómílur suð-austur af Keflavík. Þyrlan sneri þegar við og lenti klakklaust á Keflavíkurflugvelli 12 mínútum síðar.

Önnur þyrla var þá send frá varnarliðinu til að aðstoða við björgunarstörfin, en beðið var um aðstoð varnarliðsins þegar ljóst var að TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, væri biluð og gæti ekki tekið frekari þátt í björgunarstörfunum að svo stöddu. Minni þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF hefur einnig aðstoðað við björgunarstörfin.

Viðgerð tekur fjóra daga

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni hefur gírkassi úr TF-LÍF verið sendur til Noregs til viðgerðar, og er áætlað að viðgerð taki fjóra daga. Gírkassinn kostar um 37-38 milljónir króna, en ekki er ljóst hvað viðgerðin kostar.

Leigð var fraktflugvél af Flugleiðum til að koma hlutum af tógi sem nota á til að reyna að draga Baldvin á flot til landsins, segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Vélin sótti búnaðinn til Noregs og kom hingað til lands um hádegi í gær. Búnaðurinn var svo fluttur á strandstað með bílum.