Hrafnkell Sigurðsson: Hús í byggingu
Hrafnkell Sigurðsson: Hús í byggingu — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Þremenningarnir Daníel Þorkell Magnússon, Haraldur Jónsson og Hrafnkell Sigurðsson sýna það sem þeir kalla "þrjár einkasýningar í einni sýningu" í Nýlistasafninu.

Þremenningarnir Daníel Þorkell Magnússon, Haraldur Jónsson og Hrafnkell Sigurðsson sýna það sem þeir kalla "þrjár einkasýningar í einni sýningu" í Nýlistasafninu. Sýningin hefur staðið yfir undanfarnar vikur og lýkur á morgun sunnudag svo enn er tækifæri til að njóta hennar.

"Við eigum það sameiginlegt að hafa allir útskrifast úr MHÍ, skóla sem ekki er lengur til, og síðan höfum við stundað listina og verið í sambandi hver við annan með ýmsum hætti þó ekki hafi orðið úr sameiginlegu sýningarhaldi fyrr en nú," segir Haraldur í spjalli við blaðamann.

"Við gáfum hver öðrum fullkomið frelsi en áttuðum okkur á því fimm mínútum fyrir sýningu að sýningarnar féllu mjög skemmtilega hver að annarri," segir Daníel.

"Tema sýningarinnar er Heimilið og innihald þess," bætir hann við. "Það sem gerist á milli húsgagnanna," skýtur Haraldur inní.

Verk Hrafnkels eru myndir af húsum í byggingum. "Hús á jaðri borgarsamfélagsins. Eins konar þroskasaga bygginga, þar sem fylgst er með þeim frá fyrstu útveggjum til þess að að þau eru tilbúin undir tréverk, " segir Haraldur.

"Þau kallast á við hefðina í landslagsmálverkinu þar sem sjá má síbreytilega manngerða náttúru," segir Daníel. Verk Haraldar eru annars vegar 44 mynda sería af eins konar portrettum sem hann lýsir sjálfur sem "yfirborðsteikningum frá húsi að minnsta smáatriði andlits. Uppbygging myndanna minnir jafnvel á flæmska nákvæmni. Í næsta nágrenni standa verk sem áhorfandinn getur líka mátað sig við á ýmsan hátt." Daníel fer inn á heimilið og hefur jafnvel lagt til sitt eigið eldhúsborð og stóla í innsetningu af heimilinu.

"Heimili landsmanna eru í mörgum skilningi mikilvægur vettvangur myndlistar. Mér finnst alltaf merki legt þegar ókunnugt fólk kaupir myndir af mér til að hafa á heimili sínu. Borðið og stólana smíðaði ég sjálfur svo það fær aðra merkingu í samhengi sýningarinnar. Ég tek þó skýrt fram að þessir þrír hlutir eru ekki til sölu."