Mafía glamúrkvenna: Fyrirmæli eru gefin í tímaritum og sjónvarpi, um hvernig konur skuli klæðast, hvað þær láti ofan í sig og hvernig þær eigi að hegða sér í svefnherberginu.
Mafía glamúrkvenna: Fyrirmæli eru gefin í tímaritum og sjónvarpi, um hvernig konur skuli klæðast, hvað þær láti ofan í sig og hvernig þær eigi að hegða sér í svefnherberginu.
Nýlega var greint frá því á vefmiðli The Guardian, að kona nokkur, Myrna Blyth, fyrrum ritstjóri kvennatímarits, hafi gefið út bókina "Spin Sisters", þar sem hún lætur fyrrum starfssystur sínar fá það óþvegið.

Nýlega var greint frá því á vefmiðli The Guardian, að kona nokkur, Myrna Blyth, fyrrum ritstjóri kvennatímarits, hafi gefið út bókina "Spin Sisters", þar sem hún lætur fyrrum starfssystur sínar fá það óþvegið. Hún ásakar ritstýrur glans-kventímarita sem og sjónvarpskonur í fremstu víglínu um aðeyðileggja líf milljóna kvenna með stöðugum áróðri um að þær eigi að vera mjög grannar, fagrar og sækjast eftir frama um leið og þær eigi að sinna fjölskyldu. Hún segir þessa mafíu glamúrkvenna gefa fyrirmæli í gegnum tímarit og sjónvarp, um það hvernig konur skuli klæðast, hvað þær láti ofan í sig og hvernig þær eigi að hegða sér í svefnherberginu. Þannig sé alið á ótta og óöryggi kvenkyns lesenda og áhorfenda.

"Ég skrifaði þessa bók til að segja konum sannleikann um þann heim sem ég þekki vel af eigin raun. Um vald fjölmiðla, áhrif og blekkingu. Ég tók sjálf þátt í þessu."

Ein ástæða þess að bókin hefur vakið hörð viðbrögð er sú staðreynd að Blyth sviptir hulunni af öllum þeim brögðum sem beitt er í tímaritum og sjónvarpi. "Nánast hver einasta mynd sem birtist af konu í glans-kventímaritum hefur til dæmis verið "löguð". Fyrirsæturnar eru gerðar grennri og hærri með því að ýta á takka í tölvu og sama má segja um húð þeirra eða hvað sem þurfa þykir, svo þær líti út fyrir að vera fullkomnar."

Systur hennar í bransanum hafa að sjálfsögðu brugðist ókvæða við bókinni en aðrir telja Blyth hafa nokkuð til síns máls. Einn þeirra er stjórnandi fjölmiðlarannsókna í Rutgers-háskólanum. Hann segist dást að henni fyrir að "koma út úr skápnum" og opinbera þessa hluti. Hann segir augljóst að þessi tímarit ali á ranghugmyndum kvenna um hvernig hið fullkomna heilbrigði, útlit og lífstíll eigi að vera, því það sé einmitt gert á þann hátt að skaðlegt geti talist. "Þarna birtist þráhyggja um að bæta sjálfan sig endalaust. Það sem ég sé þegar ég fletti Vogue er svo sannarlega auglýsing og upphafning á lystarstoli."

khk@mbl.is