Íslenzkir kvikmyndagerðarmenn að störfum. Greinarhöfundur vill snúa vörn í sókn og spyr hvers vegna Ríkisútvarpið treysti sér ekki til að  sinna menningarhlutverki sínu af metnaði og tryggja sjónvarpsáhorfendum viðunandi framboð á vönduðu innlendu dagskrár
Íslenzkir kvikmyndagerðarmenn að störfum. Greinarhöfundur vill snúa vörn í sókn og spyr hvers vegna Ríkisútvarpið treysti sér ekki til að sinna menningarhlutverki sínu af metnaði og tryggja sjónvarpsáhorfendum viðunandi framboð á vönduðu innlendu dagskrár — Morgunblaðið/Jim Smart
Það hafa margir orðið til að varpa fram þeirri spurningu undanfarna daga, hvers vegna RÚV sé búið að loka á innkaup á efni sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda.

Það hafa margir orðið til að varpa fram þeirri spurningu undanfarna daga, hvers vegna RÚV sé búið að loka á innkaup á efni sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda.

Þá spurningu mætti allt eins umorða og spyrja hvers vegna RÚV sjái sér ekki fært að tryggja íslenskum sjónvarpsáhorfendum viðunandi framboð á vönduðu innlendu dagskrárefni, hvar svo sem það er framleitt, eða með öðrum orðum; hvers vegna RÚV sjái sér ekki fært að vera sá miðill menningarefnis í víðum skilningi sem því ber skylda til samkvæmt lögum og þeim væntingum sem gera verður til ljósvakamiðils í almenningseign.

Þau svör sem borist hafa ofan úr Efstaleiti við spurningum kvikmyndagerðarmanna og sjálfstæðra framleiðenda, hafa verið nokkuð blendin. Annars vegar réttlæting á stöðunni með vísan í tölur um innkaup, þar sem sá tónn er undirliggjandi að nóg sé að gert, en hins vegar staðhæfingar um að viljann skorti ekki, en fyrirstaðan sé fyrst og fremst fjárskortur.

Um fjárskortinn og rekstrarvandann hefur mikið verið rætt á undanförnum árum og ekker nýtt í þeim efnum, staðan er viðvarandi slæm. Það sem menn setja hins vegar spurningarmerki við, er sú forgangsröðun, með tilliti til takmarkaðra auðlinda, sem ákvörðun yfirmanna RÚV opinberar.

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, lýsti því nýverið yfir á Alþingi, að rekstrarvandi Ríkisútvarpsins væri til skoðunar í ráðuneytinu.

Það er ánægjulegt til þess að vita og vonandi leiðir sú skoðun til þess að leitað verði lausna sem sátt getur náðst um. Sú staðreynd að síðustu tveir forverar hennar í embætti, þeir Björn Bjarnason og Tómas Ingi Olrich, lýstu báðir yfir því sama í sinni embættistíð, dregur að vísu nokkuð úr væntingum, en felur líka í sér talsverða áskorun á núverandi ráðherra um að leiða málið til lykta.

Hitt er töluvert áhyggjuefni, að á meðan biðstaða ríkir í málinu, gjalda ekki aðeins sjálfstæðir framleiðendur í kvikmyndageiranum stöðunnar, afkomumöguleikar allra listamanna eru í húfi, en þó umfram allt hagsmunir þjóðarinnar sjálfrar, sem á að njóta afrakstursins.

Rekstrarumhverfi RÚV hefur verið að breytast á undanförnum árum og áratugum í kjölfar lagasetningar um frjálsan útvarpsrekstur 1985.

Í dag er RÚV í samkeppni við einkareknar stöðvar um tíma fólks, en þó fyrst og fremst um tekjur af auglýsingum.

RÚV hefur þó afgerandi forskot á þeim markaði með sínum lögbundna tekjustofni og jafnvel þó sá tekjustofn sé það skarður, ætti slíkt forskot engu að síður að veita stofnuninni svigrúm til að skapa sér sérstöðu með því að standa að og miðla metnaðarfyllri og dýrari dagskrárgerð en samkeppnisaðilarnir hafa tök á.

Þá stefnumörkun hefur skort og þróunin í raun orðið sú, að RÚV hefur í æ ríkara mæli leiðst út í samkeppni á ljósvakamarkaði, þar sem menningarlegur metnaður og viðskiptaleg sjónarmið togast á með nokkuð mótsagnakendum hætti, í stað þess að ganga á undan og skapa viðmið og vera þannig almennt hvati að auknum gæðum í dagskrárgerð ljósvakamiðla í landinu.

Á þetta hafa menntamálaráðherrar bent, þegar menningarhlutverk RÚV hefur verið til umfjöllunar á vettvangi Bandalags íslenskra listamanna.

Þannig sagði Björn Bjarnason á samráðsfundi með stjórn BÍL, hinn 17. janúar árið 2002: "Brýnt er að RÚV skilgreini starfsemi sína sem menningarstarf til að ríkisrekstur sé forsvaranlegur, m.a. vegna umræðna í þjóðfélaginu um stofnunina og reglna ESB um ríkisrekstur og samkeppnismál."

Tómas Ingi Olrich spilaði á svipaða strengi á málþingi um menningarhlutverk RÚV, sem BÍL boðaði til í Þjóðmenningarhúsinu, hinn 14. apríl sama ár. Hann sagði meðal annars: "Gild rök standa til þess að reka hér ríkisljósvakamiðil og enn gildari rök standa til þess að sá miðill leiti allra leiða til að vera framsækinn en þó umfram allt farvegur fyrir þau framsæknu öfl í þjóðfélaginu sem hafa gert menningu og menningarviðleitni að einum mesta vaxtarbroddi íslensks þjóðlífs."

Það er ljóst á þessum ummælum að menningarhlutverk RÚV er í kjarna þeirrar þjónustu sem það á að veita og sú réttlæting á starfsemi þess og fjármögnun sem ríkust er og veigamest.

Að tilhlutan Bandalags íslenskra listamanna og félaga í kvikmyndagerð var tekin saman skýrsla um stöðu leikins efnis í sjónvarp á Íslandi og gefin út af Aflvaka í júní árið 2002. Þar var lagður hugmyndalegur grunnur að sjónvarpsmyndasjóði, sem síðan var stofnaður sem þriðji sjóður kvikmyndasjóðs, með nýjum lögum um Kvikmyndamiðstöð Íslands, frá 1. janúar 2003.

Í kjölfarið gætti mikillar bjartsýni meðal kvikmyndagerðarmanna og listamanna almennt. Menn vildu trúa því að nú væri komið að þeim vatnaskilum að þjóðin teldi sig loks geta staðið að framleiðslu vandaðra leikinna sjónvarpsmynda.

Mönnum er þó farið að súrna nokkuð í augum, þar sem sjóðurinn hefur aðeins fengið brot af því fjármagni sem áætluð þörf kvað á um.

Miklu varðar að sjóðurinn verði efldur á næstu árum.

Fyrirkomulag styrkveitinga er þannig háttað að vilyrði frá sjónvarpsstöð um kaup á efni verður að liggja fyrir, sem forsenda þess að fjármagn fáist úr sjóðnum. Vilyrðið þarf ekki að koma frá RÚV - allar innlendar sjónvarpsstöðvar sem hyggja á kaup á íslensku efni eru gjaldgengar og þetta er veigamikið atriði í jöfnun samkeppnisstöðu einkarekinna sjónvarpsstöðva gagnvart RÚV. Þarna sem annars staðar hefur RÚV þó yfirburðastöðu og því ekki undarlegt að kvikmyndagerðarmenn geri væntingar til RÚV í þessum efnum, umfram aðrar stöðvar.

Þetta fyrirkomulag ætti líka að vera einkar aðgengilegt fyrir RÚV í þeim margumtalaða fjárhagsvanda sem steðjar að stofnuninni, enda framlag sjónvarpsstöðva aðeins hluti framleiðslukostnaðar.

Í því ljósi er afstaða yfirmanna RÚV enn undarlegri.

Sú spurning hlýtur að verða æ áleitnari, hvort við sem þjóð ætlum að vera þiggjendur á sjónvarpsmarkaði til frambúðar, ef undan eru skildar fréttir, íþróttir, auglýsingar og afþreyingarefni og láta okkur nægja að spegla okkur í veruleika annarra þjóða og menningarsamfélaga, eða hvort tími er kominn til að snúa vörn í sókn og láta umræðu undanfarinna daga, mánaða og ára, verða aflvaka aðgerða í þágu metnaðarfullrar dagskrárgerðar og þar með samkeppnishæfni íslenskrar menningar, heima og heiman.

Eftir Tinnu Gunnlaugsdóttur

Höfundur er leikkona og forseti Bandalags íslenskra listamanna.