Að loknu sundinu: Guðlaugur Friðþórsson afhenti félögum í Björgunarfélaginu 900 þúsund krónur, en Magnús Kristinsson hafði frumkvæði að því að safna því hjá útvegsbændum í Eyjum. Guðlaugur þakkaði sundköppunum fyrir stuðninginn, en þeir syntu sex kílómetra
Að loknu sundinu: Guðlaugur Friðþórsson afhenti félögum í Björgunarfélaginu 900 þúsund krónur, en Magnús Kristinsson hafði frumkvæði að því að safna því hjá útvegsbændum í Eyjum. Guðlaugur þakkaði sundköppunum fyrir stuðninginn, en þeir syntu sex kílómetra — Morgunblaðið/Sigurgeir
Vestmannaeyjar | Alla tíð síðan 1985 hefur Guðlaugssundið svokallaða verið synt en það er gert til að minnast björgunar Guðlaugs Friðþórssonar en hann synti sex kílómetra leið til Heimaeyjar eftir að bátur sem hann var skipverji á, Hellisey VE, fórst...
Vestmannaeyjar | Alla tíð síðan 1985 hefur Guðlaugssundið svokallaða verið synt en það er gert til að minnast björgunar Guðlaugs Friðþórssonar en hann synti sex kílómetra leið til Heimaeyjar eftir að bátur sem hann var skipverji á, Hellisey VE, fórst aðfaranótt 12. mars 1984. Í ár syntu sjö alla leið, á fimmtudagskvöld byrjuðu þrjár stúlkur úr Sunddeild ÍBV, þær Berglind Brynjarsdóttir, Tinna Rún Kristófersdóttir og Eva Ösp Örnólfsdóttir að synda og voru þær allar um eða rétt undir tveimur klukkustundum að ljúka sundinu. Það var svo um fjögurleytið í gærmorgun sem þeir Magnús Kristinsson, Jóhann Halldórsson, Óskar Óskarsson og Allan Allisson lögðu af stað í þessa löngu ferð sem er 240 ferðir í sundlaug Íþróttamiðstöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Einnig voru á ferð fjórir vaskir starfsmenn Íþróttamiðstöðvarinnar sem syntu boðsund og hver um sig synti einn og hálfan kílómetra. Um talninguna sáu þeir Guðlaugur Friðþórsson og Friðrik Ásmundsson sem að öðrum ólöstuðum hefur haldið þessu mikla afreki á lofti í gegnum árin. Það var svo um hálfsjö leytið um morguninn sem kapparnir kláruðu sundið og skelltu sér að sjálfsögðu í pottana á eftir. Guðlaugur Friðþórsson hélt svo stutta ræðu þar sem hann þakkaði sundköppunum fyrir og afhenti Björgunarfélaginu 900 þúsund krónur sem Magnús Kristinsson hafði séð um að safna frá útvegsbændum í Eyjum. Sagði Guðlaugur að sundið hefði alltaf verið til að minna á öryggismál sjómanna og því hefði þeim þótt vel við hæfi að gefa þessa gjöf í tilefni tuttugu ára afmælis björgunarinnar. Adolf Þórsson formaður Björgunarfélagsins tók við gjöfinni og sagði hana koma sérstaklega vel að notum á þessum tíma enda væri verið að gera björgunarbátinn Þór kláran fyrir næstu átök. Svo var boðið upp á rjómatertu og kaffi og kom það í hlut ábúandans á Suðurgerði 2, Atla Elíassonar að skera fyrstu tertusneiðina ofan í konu sína, Kristínu Frímannsdóttur en Guðlaugur bankaði upp á hjá þeim hjónum, kaldur og hrakinn eftir að hafa gengið yfir hraunið.