SUNNUDAGINN 14. mars verður mikið um að vera í Þorgeirskirkju að Ljósavatni. Þar ætla söfnuðir úr þremur prestaköllum að sameinast í guðsþjónustu.

SUNNUDAGINN 14. mars verður mikið um að vera í Þorgeirskirkju að Ljósavatni. Þar ætla söfnuðir úr þremur prestaköllum að sameinast í guðsþjónustu. Á þessu svæði starfa 9 kirkjukórar og munu kórfélagar úr þeim öllum mynda öfluga söngsveit sem syngur við messuna.

Yfirstjórnandi er Dagný Pétursdóttir, en hún ásamt söngstjórum kirkjukóranna á svæðinu (Björgu Sigurbjörnsdóttur, Petru Björk Pálsdóttur og Juliet Faulkner) hafa æft kórfélagana hver á sínum stað.

Síðastliðið fimmtudagskvöld var sameiginleg æfing í Þorgeirskirkju. Var tignarlegt að heyra í þessum stóra kirkjukór, en hljómburður í Þorgeirskirkju er sérstaklega góður, segir í fréttatilkynningu.

Í messunni á sunnudaginn, sem byrjar kl. 14, mun sr. Gylfi Jónsson prédika, en sr. Þorgrímur Daníelsson á Grenjaðarstað og sr. Pétur Þórarinsson í Laufási þjóna fyrir altari. Allir eru velkomnir í Þorgeirskirkju þennan sunnudag.