Þrjár tegundir af grænmetisbuffum eru í boði hjá Grími kokki.
Þrjár tegundir af grænmetisbuffum eru í boði hjá Grími kokki.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að þessu sinni röltum við um sýninguna Matur 2004 sem var nýlega haldin í Kópavogi.

Að þessu sinni röltum við um sýninguna Matur 2004 sem var nýlega haldin í Kópavogi.

Þeir sem búa einir hafa oft kvartað yfir því hve fjölskyldupakkningar virðast allsráðandi í allri matvöru hér á landi þrátt fyrir þá staðreynd að tæp 27% allra Íslendinga búa einir. Fyrirtækið Fjallalamb á Kópaskeri ákvað sl. sumar að bregðast við slíkri eftirspurn og setti á markað Einbúann, línu af lambasteikum í 200-350 g pakkningum, sem ætlaðar eru þeim sem eru 1-2 í heimili.

Viðtökurnar hafa líka verið góðar að sögn Garðars Eggertssonar, framkvæmdastjóra Fjallalambs. "Þemað bak við línuna var að bjóða upp á góðan valkost fyrir þá sem eru kannski bara einn til tveir í heimili og vilja elda góðan mat án þess að sitja svo uppi með mikla afganga og undirtektirnar hafa verið afar góðar," segir Garðar. "Ég held líka að við höfum verið heppin með val á kryddi, en hugsunin þar var að vera með mild krydd og náttúruleg og lítið salt svo að lambakjötsbragðið skili sér í gegn. Menn eiga þá líka frekar möguleika á að bæta við kryddi ef þeir vilja skerpa á bragðinu."

Hægt er að velja um fjórar mismunandi gerðir af Einbúasteikum: lundir, fillet, ribeye og sirloin og hefur kjötið m.a. verið til sölu í Fjarðarkaupum, verslunum Hagkaupa og Melabúðinni svo dæmi séu tekin.

Á sýningunni voru hressir menn frá fyrirtækinu Grími kokki í Vestmannaeyjum að kynna heilsurétti, þrjár tegundir af grænmetisbuffum, gulrótar- og linsubaunabuff, hvítlauks- og hvítbaunabuff og ítalskt linsubaunabuff.

"Við förum af stað með þrjár tegundir og svo getur vel verið að fleiri fylgi í kjölfarið því viðtökurnar hafa verið það góðar," segir Sigmar Georgsson sem rekur fyrirtækið Grím kokk ásamt Grími Þór Gíslasyni.

Þeir hafa um árabil framleitt fiskrétti eins og plokkfisk, fiskibollur og buff og viðskiptavinir hafa af og til innt þá eftir því hvort þeir vilji ekki líka hefja framleiðslu grænmetisrétta.

"Við fórum að fikra okkur áfram og þetta varð niðurstaðan. Buffin eru seld í neytendapakkningum og þá eru fjögur stykki í pakka. Buffin eru fullelduð og þarf bara að hita þau upp. Þá er einnig hægt að fá buffin pökkuð lausfryst, fimmtíu saman í pakka.

Grænmetisréttirnir fást í Nóatúnsbúðunum, Hagkaupum, Fjarðarkaupi, 11-11 og hjá Samkaupum.