Sigurður Einarsson
Sigurður Einarsson
SIGURÐUR Einarsson, stjórnarformaður KB banka, hefur ákveðið að flytjast búferlum til Lundúna í vor, þar sem hann mun beita sér fyrir útrás bankans í Bretlandi og á Norðurlöndunum.

SIGURÐUR Einarsson, stjórnarformaður KB banka, hefur ákveðið að flytjast búferlum til Lundúna í vor, þar sem hann mun beita sér fyrir útrás bankans í Bretlandi og á Norðurlöndunum. Sigurður segir að helstu sóknarfærin fyrir bankann liggi á erlendri grundu. Hann tilkynnti starfsfólki KB banka þessar breytingar í gærkvöld.

Sigurður segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi velt þessu fyrir sér í nokkurn tíma. "Ég er búinn að vera miklu meira erlendis en nokkurn tíma hérna heima undanfarin 2-3 ár. Það var útfrá skipulagningu miklu auðveldara fyrir mig að vera þar en hér. Við erum með mjög öfluga stjórnendur hér heima sem sjá að megninu til um starfsemina hér. Vöxturinn er annars staðar og það þarf að sinna því," segir Sigurður, sem segir að undanfarin tvö ár hafi hann verið um 200 vinnudaga á ári erlendis.

Helmingur tekna kemur að utan

Sigurður segir að sóknarfæri bankans liggi einkum á hinum Norðurlöndunum og í Bretlandi. Í dag starfrækir bankinn alls tíu útibú erlendis í átta löndum. "Við erum að sækja fram á því sem má kalla heildsölubankasviði, sem er þrí- eða jafnvel fjórþætt; á sviði eignastýringar, fyrirtækjaráðgjafar, almennrar bankastarfsemi og þá fyrst og fremst í formi fjárfestinga og útlána," segir hann.

Í bréfi sem Sigurður sendi starfsfólki bankans til að skýra þessa ákvörðun sína segir hann að meginhlutverk hans í daglegum störfum fyrir bankann sé þróunarvinnan erlendis og að í dag komi meira en helmingur tekna KB banka frá starfsemi utan landsteinanna. "Á næstu misserum og árum má gera ráð fyrir því að sérstök áhersla verði lögð á útrás í Bretlandi og á Norðurlöndum, sem bankinn skilgreinir sem núverandi heimamarkað sinn. Til þess að geta sinnt áframhaldandi sókn bankans á þessum stöðum hef ég tekið ákvörðun um að flytjast búferlum til London í vor. Með búsetu þar get ég dregið verulega úr ferðalögum og nýtt tímann betur fyrir bankann um leið og aukinn tími gefst til samvista með fjölskyldunni," segir í bréfinu.

Aðspurður hvort ferðalög til Íslands muni ekki koma í staðinn, segir Sigurður að hann geri ráð fyrir að starfa ákveðna daga í mánuði hér á landi og því muni hann fylgjast vel með því sem er að gerast hér á landi einnig. "Við ætlum okkur jafnframt að standa vörð um sterka stöðu okkur sem stærsti bankinn á Íslandi og mun ég taka þátt í þeim þætti rekstrarins með óbreyttum hætti," segir Sigurður jafnframt í bréfinu.