Fjölmenni: Foreldrar barna á leikskólanum Klöppum og fulltrúar flokkanna í bæjarstjórn fjölmenntu á fundinn.
Fjölmenni: Foreldrar barna á leikskólanum Klöppum og fulltrúar flokkanna í bæjarstjórn fjölmenntu á fundinn. — Morgunblaðið/Kristján
FORELDRAR barna á leikskólanum Klöppum hafa lýst yfir undrun sinni og áhyggjum með að loka eigi leikskólanum og afhenti formaður Hólmasólar, foreldrafélags leikskólans Klappa, Sigrún Óladóttir, bæjarstjóranum á Akureyri, Kristjáni Þór Júlíussyni...

FORELDRAR barna á leikskólanum Klöppum hafa lýst yfir undrun sinni og áhyggjum með að loka eigi leikskólanum og afhenti formaður Hólmasólar, foreldrafélags leikskólans Klappa, Sigrún Óladóttir, bæjarstjóranum á Akureyri, Kristjáni Þór Júlíussyni undirskriftalista þar sem lokuninni er mótmælt. Listinn var afhentur á fundi sem félagið efndi til með fulltrúum úr skólanefnd á fimmtudagskvöld.

Meirihluti skólanefndar ákvað á fundi í byrjun vikunnar að loka Klöppum næsta haust og flytja starfsemina í nýjan leikskóla í Tröllagili sem þá verður tilbúinn. Klappir eru við Brekkugötu, í húsi sem áður var íbúðarhús og þar er rými fyrir 37 börn. Á Tröllagili verður rými fyrir 90 börn á fjögurra deilda leikskóla. Foreldrar eru afar óánægðir með þessa ákvörðun og létu það berlega í ljós á fundi með bæjarstjóra og skólanefndarmönnum. Segja ákvörðunina hafa verið tekna í skyndi og hún sé vanhugsuð.

Jón Kr. Sólnes, formaður skólanefndar, sagði að fag- og fjárhagslegar ástæður væru fyrir lokuninni. Leikskólinn hefði í 11 ár verið í bráðabirgðahúsnæði og það hefði öllum verið ljóst. Aðstaðan sem þar byðist væri mun lakari en á nýjum leikskólum. Gert er ráð fyrir að sparnaður við lokun leikskólans nemi um 35 milljónum króna á tveggja ára tímabili. Jón sagði að óhagræði foreldra yrði mætt sem kostur væri, starfsfólki og börnum yrði boðið að flytja sig yfir í nýjan leikskóla í Tröllagili, en þeir sem ekki þekktust það boð gætu valið aðra leikskóla í bænum fyrir börn sín.

Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn, Þorlákur Axel Jónsson, Samfylkingu, og Valgerður H. Bjarnadóttir, Vinstri grænum, tóku til máls á fundinum og sagðist Þorlákur vonast til að ákvörðun um lokun yrði dregin til baka á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag. "Mér finnst þessi ákvörðun ófagleg og lýsa stefnuleysi," sagði Þorlákur. Valgerður lýsti yfir undrun á vinnubrögðum varðandi málið og nefndi að þegar gengið var frá fjárhagsáætlun fyrir þetta ár hefði þetta mál ekki verið á dagskrá. Gunnar Svanbergsson úr hópi foreldra fór yfir stefnu Akureyrarbæjar í fjölskyldumálum og þótti margt sem þar er að finna ekki samræmast ákvörðun um lokun Klappa. Hermann Karlsson, einnig úr hópi foreldra, fór yfir ferli leikskólamála á Brekkunni síðustu 5 árin, en þegar árið 1999 hafi verið ákveðið að byggja leikskóla á lóð við Helgamagrastræti, en málið hafi velkst um á milli nefnda í kerfinu upp frá því. Frá því starfshópur um leikskóla á neðri Brekkunni hóf störf snemma árs 2003 hefði lítið gerst, "þar til skólanefnd varpaði sprengjunni á mánudag", eins og hann orðaði það. "Maður hélt fyrst að þetta væri eitthvað öskudagsgrín," bætti hann við en sagði að mönnum væri nú orðið ljóst að svo væri ekki.

Njáll Trausti Friðbertsson foreldri fór yfir kostnaðarhlið málsins og taldi Klappir ekki jafn óhagkvæma rekstareiningu og af væri látið. Þá taldi hann stjórnmálamenn sýna forræðishyggju í þessum máli, þeir þættust geta sagt til um hvað væri nógu gott fyrir börnin. "Þetta er gerræðisleg ákvörðun og ég hef aldrei séð annað eins," sagði hann.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri sagðist skilja viðbrögð foreldra við snöggri afgreiðslu skólanefndar í málinu nú í vikunni, en benti á að umræðan væri ekki ný af nálinni. Lengi hefði legið ljóst fyrir að Klöppum yrði lokað, en vissulega hefðu tafir orðið á byggingu leikskóla á neðri Brekkunni, sem leysa átti leikskólann af hólmi. Þar hefði m.a. komið til að skiptar skoðanir hefðu verið um staðsetninguna við Helgamagrastræti innan síðasta meirihluta, Sjálfstæðisflokks og Akureyrarlista, sem og einnig skipulagsmál. Kristján Þór sagði að nú væri stefnt að því að nýr leikskóli yrði opnaður á umræddu svæði árið 2006. Vissulega myndi veruleiki barna og foreldra þeirra raskast á meðan og það væri miður. Bæjarstjóri vonaðist til að hægt yrði að lenda málinu með vitlegum hætti, að lausn fyndist sem menn sættu sig við.