Veggspjald byggt a myndbandinu viÐ lagiÐ Big Bang med Coral.
Veggspjald byggt a myndbandinu viÐ lagiÐ Big Bang med Coral.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarni Helgason er enginn venjulegur listamaður. Bjadddni Hell, eins og hann kallar sig, lætur til sín taka á mörgum sviðum. Hann hefur gert myndbönd sem hafa vakið athygli, þeirra á meðal eru "Brighter" með Ensími, "Homo Sapiens" með Dr. Gunna og "Má ég sparka" með Bent og 7Berg. Hann er líka í hljómsveit, tekur LOMO-myndir, hannar lógó, málar málverk og ótalmarga hluti til viðbótar eins og sjá má á vef hans this.is/herrahelviti.

Bjarni er sem stendur í meistaranámi í Maidstone á Englandi við Kent Institute of Art and Design. Námsbrautin hæfir svona fjölhæfum listamanni, "Media Arts" heitir það sem Bjarni helgar sig núna. Þar er áherslan á myndlist þar sem notað er hljóð, vídeó, ljósmyndun og fleira þannig að margir miðlar vinna saman. Aðeins tíu eru í hóp og aðhaldið er mikið. "Maður þarf reglulega að standa fyrir máli sínu. Þetta snýst mikið um að vinna verkefni og kynna þau hópnum. Svo lesum við líka fræðilegar kenningar til að skilja betur hvað maður er að gera. Maður lærir að skilgreina, lesa og hugsa betur," segir Bjarni sem telur þetta heppilega viðbót við það nám sem hann hefur nú þegar lokið.

Bjarni, sem er 27 ára, útskrifaðist af myndlistarbraut FB árið 1998, lauk BA-námi í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og starfaði eftir það sem grafískur hönnuður, bæði sjálfstætt og hjá auglýsingastofum. Hann valdi myndlistartengt framhaldsnám til að víkka sjóndeildarhringinn og fá hlé frá hönnunarbransanum á Íslandi þótt hann hafi ekki sagt skilið við hann.

Þögnin er ekki til

Bjarni byrjaði í framhaldsnáminu í haust og hefur að miklu leyti verið að einbeita sér að hjóðinnsetningum. "Þegar ég fór upphaflega í námið ætlaði ég að vinna með vídeó, gera eitthvað sem kæmi sér vel í sambandi við myndböndin. En þetta þróaðist þannig að ég fékk áhuga á þessu," segir hann og bætir við að þetta tengist að einhverju leyti því að hann hafi verið í tónlist. "Ég var í mörg ár í barhljómsveit sem heitir Úlrik og spilaði á gítar. Ég hef verið að semja tónlist síðustu ár og er í hljómsveit sem heitir Uzi Jakapi. Þetta er svona tilraunakennd spunatónlist."

Þó er það ekki beint tónlistin sem Bjarni leggur áherslu á í hljóðinnsetningunum heldur þögnin. Verkin ganga út á að magna þögnina og hafa yfirskriftina "Mögnuð þögn". "Uppsprettan að þessu hugmyndafræðilega séð gengur út á það að þögnin sé ekki til. Það er aldrei til algjör þögn heldur samanstendur þögnin af mörgum hljóðum í umhverfinu," segir Bjarni og útskýrir að kenningin sé upprunnin hjá bandarískum listamanni, John Cage, en þekktasta verk hans er 4:33. "Það er tónverk sem hann samdi fyrir píanó sem er algjör þögn."

Samhliða þessu vinnur Bjarni með aðra miðla eins og ljósmyndun og vídeó. Þögnin er til á fleiri stöðum. "Ég er að vinna með þögnina á þessum sviðum líka. Þetta eru alls konar tilraunir sem verða vonandi að einhverju," segir Bjarni sem er ánægður með að fá tækifæri til að gera svona tilraunir í náminu. "Það er gott að vera ekki háður yfirmönnum eða kúnnum."

Vinna með hugmyndir

Takmarkið er því að nást og Bjarni er að víkka sjóndeildarhringinn. Hann heldur þó að myndlistin verði alltaf áhugamál. "Ef maður vinnur sem myndlistarmaður að atvinnu þarf maður að hugsa um markað og fá styrki," segir hann og bætir við að þá verði starfið meira eins og hver önnur vinna.

"Þetta nám tengist grafískri hönnun líka á ákveðinn hátt. Maður lærir að lesa í hlutina, skilgreina og vinna með hugmyndir. Þetta hjálpar manni alveg jafn mikið og að fara í framhaldsnám í grafískri hönnun."

Húmor og boðskapur

Myndböndin hans hafa vakið athygli og Bjarni hefur skapað sér ákveðinn stíl, bæði hugmyndafræðilega og útlitslega. "Hugmyndirnar eru léttar þótt undirtónninn sé alvarlegur," segir Bjarni en honum er fátt heilagt; húmor og boðskapur eru lykilorð.

"Þetta eru mínar skoðanir sem koma þarna fram frekar en hljómsveitarinnar. Þau verkefni sem ég hef verið að taka að mér hef ég ekki gert beint fyrir peninga heldur ánægjunnar vegna. Þá fæ ég líka að ráða þessu sjálfur. Þetta er gott tækifæri til að fá reynslu og þróa hugmyndir og stíl."

Hann notar mikið klippimyndastíl. "Ég nota fundið efni og vinn svo í því. Þetta er spurning um að setja saman og láta hreyfast. Ég hef ekki mikið verið að teikna sjálfur."

Bjarni hefur hug á að halda áfram í myndbandagerð þegar færi gefst. "Mig langar að gera myndböndin betri þótt ég sé þokkalega ánægður. Mig langar að gera flóknari myndbönd, skemmtilegri og stærri."

Bjarni hefur einnig hannað vörumerki og snúið út úr þekktum vörumerkjum, ef svo má segja. Í þessu er pólitískur undirtónn líkt og í myndböndunum. Hann sér vissulega rúm fyrir pólitík í hönnun. "Þetta hefur verið áberandi síðustu ár. Til dæmis hjá adbusters.org . Þar er samfélagslegur áróður eins og áróður gegn sölumennsku. Auglýsingum er breytt og Adbusters standa líka fyrir einum degi á ári þar sem fólk er hvatt til að kaupa ekki neitt. Þetta er eitthvað sem vantar algjörlega í grafíska hönnun sem iðnað. Flestir sem fara í grafíska hönnun sjá fyrir sér níutilfimm-vinnu og eru minna að hugsa um samfélagslegu hliðina á þessu. Markaðsfræðingar stjórna að mínu mati auglýsingabransanum á Íslandi," segir Bjarni sem aðspurður segist vilja hafa þetta öðruvísi.

"Já, það er bara spurning um að hafa þor. Þetta er svo lítið samfélag og aðal óttinn er við að móðga fólk," segir Bjarni sem segir hlutina með öðru móti í Bretlandi. "Auglýsingarnar eru allar beittari."

Bjarni er ófeiminn við að prófa sig áfram. "Mér finnst svo gaman að skapa og vinna og búa til eitthvað nýtt. Ég þarf alltaf að vera að prófa eitthvað."

Fæðist fólk með teiknihæfileika? "Ég held að þetta sé áhuginn númer eitt, tvö og þrjú. Maður þarf að hafa áhuga og þolinmæði. Þótt maður geri eitthvað vont þá er alltaf hægt að gera betur næst. Margir gefast upp strax en hjá mér var það ekki möguleiki. Það þarf stundum að pína sig aðeins til að komast yfir hæðina," segir Bjarni sem segir mikilvægt að gefa hlutunum tíma. "Það er um að gera að lesa, skoða hvað aðrir eru að gera og hafa bara áhuga á öllu. Maður veit aldrei hvar uppsprettan er," segir Bjarni um innblástur.

Salerni allra landa sameinist

Eitt af því sem Bjarni hefur áhuga á eru salerni, sem hann hefur myndað víðs vegar um heiminn. Hvað skyldi hafa vakið þennan áhuga?

"Þetta kom til af miklum áhuga á bjórdrykkju, en henni fylgja tíðar klósettferðir. Ég keypti mér litla, rússneska myndavél, LOMO, og af því að hún er svo lítil og þægileg þá var maður alltaf með hana í vasanum. Ég fór að taka eftir því smám saman að ég var með mikið af myndum af klósettum og fór að gera eitthvað við þetta, " segir Bjarni sem hefur myndað klósett á Íslandi, í Tyrklandi, Finnlandi, Englandi, Danmörku, Svíþjóð og Frakklandi.

Hann hefur áhuga á að mynda fleiri hérlendis. "Ég ætla að reyna að gera eitthvað úr þessu. Mig langar til að gera bók þegar ég kem heim, jafnvel fleiri en eina, með þessu viðfangsefni. Ein hugmyndin er sú að fara hringinn í kringum landið og mynda öll salerni við vegasjoppur."

Salerni eru vissulega staður þar sem er ró og friður og gott að setjast niður," segir Bjarni. "Þetta er líka eini staðurinn þar sem fólk er eitt núorðið. Það er yfirleitt ekki sjónvarp eða útvarp á klósettum og maður fer yfirleitt einn. Þetta er orðið einn af fáum stöðum þar sem maður fær frí frá áreiti."

Skemmtileg slys

LOMO-myndirnar heilla af mörgum ástæðum. "Það er aðallega það að myndirnar hafa mikinn karakter, þær eru grófar. Það er bara hægt að hafa fjórar fókusstillingar. Maður veit aldrei hvernig útkoman verður og hefur ekki alveg stjórn á þessu. Það verða skemmtileg slys," segir Bjarni.

"Það er ekki alltaf sem maður vill missa stjórnina þannig að það er gott að hafa betri vélar til að nota líka," segir hann, sem kýs gamlar myndavélar fram yfir nýjar stafrænar.

Bjarni er langt því frá uppiskroppa með hugmyndir. "Það er eitt annað sem ég væri til í að kæmi fram. Ég er að leita mér að rithöfundi til að vinna með. Mig langar til að gera stuttmyndir, stuttar teiknimyndir," segir hann en áhugasamir ættu endilega að kíkja á vefinn hans Bjadddna Hell og hafa samband.

ingarun@mbl.is