Mikil gerjun er í kvikmyndagerð á Norðurlöndum og norrænir kvikmyndagerðarmenn hafa margir vakið heimsathygli. Kvikmyndagerð hefur hins vegar hingað til ekki skipað sama sess í samstarfi Norðurlanda og aðrar listgreinar.

Mikil gerjun er í kvikmyndagerð á Norðurlöndum og norrænir kvikmyndagerðarmenn hafa margir vakið heimsathygli. Kvikmyndagerð hefur hins vegar hingað til ekki skipað sama sess í samstarfi Norðurlanda og aðrar listgreinar. Nú hefur verið ákveðið að bæta úr því. Ráðherrar menningarmála á Norðurlöndum ákváðu á fundi í Kaupmannahöfn á miðvikudag að norræn kvikmyndaverðlaun yrðu veitt í fyrsta skipti á þingi Norðurlandaráðs á næsta ári.

Kvikmyndin er opið listform og aðgengilegt og með henni er hægt að má út landamæri og múra. Áhrif hennar eru óumdeild í fjöldamenningu nútímans, hvort sem menn telja þau til góðs eða ills. Það er því löngu tímabært að þessi grein njóti sömu viðurkenningar á vettvangi Norðurlandaráðs og aðrar listgreinar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að verðlaunin mörkuðu ákveðin tímamót: "Þetta hefur lengi verið í umræðunni en ekki orðið úr því fyrr en nú. Þetta er því mikilvæg ákvörðun."

Þessi ákvörðun er mikilvæg vegna þess að hún mun stuðla að því að auka viðgang og kynningu norrænna kvikmynda víða um lönd. Hún er ekki síður mikilvæg vegna þess að fyrir vikið munu þjóðir Norðurlanda kynnast kvikmyndagerð hver annarrar betur. Hlutur norræns efnis jafnt í kvikmyndahúsum sem í sjónvarpi verður stöðugt rýrari. Reyndar þarf ekki nema að líta á framboðið í kvikmyndahúsunum til að sjá hversu einsleitt framboðið er orðið á bíómyndum. Megnið af þeim myndum kvikmyndahúsanna koma frá enskumælandi löndum, flestar frá Hollywood. Íslenskir kvikmyndahúsagestir þekkja vart annað en framleiðslu draumaverksmiðjunnar í Kaliforníu og fara á mis við það, sem gerist annars staðar í heiminum. Þó kemur hvað eftir annað í ljós þegar hér eru haldnar kvikmyndahátíðir að myndir, sem gerðar eru annars staðar í heiminum geta dregið að áhorfendur og sem betur fer rata myndir, sem njóta vinsælda á hátíðum, endrum og sinnum í almennar sýningar. En við höfum einnig séð dæmi þess að kvikmyndahúsin hafi ekki tekið mynd til almennra sýninga fyrr en þau höfðu verið beitt þrýstingi bæði á Alþingi og af almenningi og er þar átt við sænsku myndina Lilya 4-ever, sem lýsir mansali á sláandi hátt. Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs gætu orðið liður í því að snúa við þeirri þróun, sem hér er lýst, og orðið til þess að auka framboð og fjölbreytni kvikmynda, sem hér eru sýndar.