Málin rædd: Þórólfur Árnason borgarstjóri og Gunnar Torfi Ólafsson nemandi ræddu málefni ungs fólks í Reykjavík fyrir fundinn í Ráðhúsinu í gær.
Málin rædd: Þórólfur Árnason borgarstjóri og Gunnar Torfi Ólafsson nemandi ræddu málefni ungs fólks í Reykjavík fyrir fundinn í Ráðhúsinu í gær. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Reykjavík | Reykjavíkurráð ungmenna fundaði með fulltrúum borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær og ræddu fulltrúar ungmenna ýmis mál sem á þeim brunnu við borgarfulltrúana.

Reykjavík | Reykjavíkurráð ungmenna fundaði með fulltrúum borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær og ræddu fulltrúar ungmenna ýmis mál sem á þeim brunnu við borgarfulltrúana.

Ungmennaráðið lagði fram fjölmargar tillögur, þar á meðal um vinnureglur nemendaráða, sérkennslu fyrir bráðger börn, aðstöðu til íþróttaiðkunar, lífsleiknikennslu, lýsingu í Elliðaárdalnum o.fl.

Erla María Markúsdóttir mælti fyrir tillögu um aukna lífsleiknikennslu í grunnskólum. Hún sagði að rétt væri að byrja enn fyrr að kenna lífsleikni en gert er í dag og sagði kennsluna ekki nægilega markvissa. Fræða þyrfti nemendur um fleira en fíkniefni og ábyrgt kynlíf, t.d. átraskanir og fjármál.

Sérkennsla fyrir bráðger börn

Gunnar Torfi Ólafsson lagði til fyrir hönd nemenda að sérkennsla fyrir bráðger börn yrði bætt stórlega. Hann benti á að óeðlilegt yrði að teljast að bráðger börn þyrftu að borga 12.000 kr. á önn fyrir þátttöku í verkefninu Bráðger börn, enda dytti að sjálfsögðu engum í hug að láta þau börn borga sem þurfa á annars konar sérkennslu að halda. Einnig benti Gunnar á lélegt samræmi í hæð borða og stóla fyrir nemendur, og bauð borgarfulltrúum að prófa nokkra stóla sem nemendur höfðu með í för.

Erla María Jónsdóttir lagði aftur á móti áherslu á að íþróttaaðstaða í Breiðholtinu yrði bætt. Hún skýrði fundarmönnum frá því að ómögulegt væri fyrir allar íþróttagreinar að fá inni í íþróttahúsum hverfisins, og í raun væru þau uppbókuð fyrir hefðbundnar boltaíþróttir og því ekkert pláss fyrir aðrar íþróttir, eins og fimleika, frjálsar íþróttir, tennis, badminton, blak o.fl.