HÆSTIRÉTTUR hnekkti í gær dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. júní 2003 í meiðyrðamáli sem Bjarni F. Einarsson, umsækjandi um kennarastarf í fornleifafræði við Háskóla Íslands, höfðaði gegn þremur dómnefndarmönnum sem meta áttu hæfi hans.

HÆSTIRÉTTUR hnekkti í gær dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. júní 2003 í meiðyrðamáli sem Bjarni F. Einarsson, umsækjandi um kennarastarf í fornleifafræði við Háskóla Íslands, höfðaði gegn þremur dómnefndarmönnum sem meta áttu hæfi hans. Hin átöldu ummæli voru í þeim hluta dómnefndarálits sem fjallaði um umsækjandann og sagði áfrýjandi, Bjarni, að þar fram kæmu ýmis órökstudd ummæli sem hefðu vegið að æru hans og persónu.

Hin átöldu ummæli í áliti dómnefndar voru annars vegar: "Þar slær hann [Bjarni] fram fullyrðingum sem ekki eru byggðar á neinum rökum, en það er hreint og beint ábyrgðarleysi" og "Tilgangi rannsóknarinnar var því ekki náð og illa var farið með almannafé."

Um fyrri ummælin segir Hæstiréttur að þau hafi verið röng og meiðandi fyrir Bjarna og til þess fallin að skerða fræðimannsheiður hans. Um síðari umælin segir Hæstiréttur að þau hafi falið í sér siðferðisdóm, sem væri meiðandi fyrir Bjarna, enda tilhæfulaus og óviðurkvæmileg í dómnefndaráliti.

Ummælin voru því dæmd ómerk og dómnefndarmenn dæmdir til að greiða Bjarna 100 þúsund krónur auk 500 þúsund króna í málskostnað.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein. Lögmaður Bjarna var Jakob R. Möller hrl. og lögmaður dómnefndarmanna Hörður F. Harðarson hrl.