Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við Muammar Gaddafi í tjaldi Líbýuleiðtogans skammt frá Trípólí.
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við Muammar Gaddafi í tjaldi Líbýuleiðtogans skammt frá Trípólí. — AP
TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að stjórnvöld í Líbýu væru reiðubúin að ganga til liðs við Vesturlönd í baráttunni gegn hryðjuverkaógninni.

TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að stjórnvöld í Líbýu væru reiðubúin að ganga til liðs við Vesturlönd í baráttunni gegn hryðjuverkaógninni. Lét Blair þessi ummæli falla eftir að hafa átt viðræður við Muammar Gaddafi Líbýuleiðtoga í bedúína-tjaldi skammt frá höfuðborginni, Trípólí.

Fundur Blairs og Gaddafis þótti sögulegur og til marks um þau miklu umskipti sem átt hafa sér í afstöðu Líbýumanna til Vesturlanda á síðustu mánuðum. Fyrir um þremur mánuðum lýsti Gaddafi óvænt yfir því að Líbýumenn hefðu hætt við áætlanir um að koma sér upp gjöreyðingarvopnum og skýrði frá því að stjórnvöld þar tækju alþjóðlegu eftirliti með þeirri ákvörðun fagnandi.

Saman gegn öfgum og hryðjuverkum

Eftir fundinn sagði Blair við fréttamenn að sinnaskipti Líbýumanna væru "stórbrotin". Gaddafi og undirsátar hans hefðu skapað fordæmi sem önnur arabaríki ættu að veita athygli. Blair kvað Gaddafi hafa lýst yfir því að áfram yrði haldið á braut samstarfs við Vesturlönd enda gerði Líbýuleiðtoginn sér ljóst að framtíð landsins yrði best tryggð með nýju og breyttu sambandi við umheiminn.

Blair sagði að á fundinum hefði komið fram í máli Gaddafis að hann hygðist taka þátt í "baráttunni gegn Al-Qaeda [hryðjuverkanetinu], öfgum og hryðjuverkum, sem ógna ekki eingöngu Vesturlöndum heldur og arabaheiminum".

"Það er gott að vera kominn hingað eftir þessa löngu bið," sagði Blair við upphaf fundar þeirra Gaddafis. "Þú barðist mjög fyrir þessu máli," svaraði Gaddafi á ensku og virtist eiga við framgöngu Blairs í því skyni að bæta samskiptin við Líbýu. För Blairs til Líbýu var ekki óumdeild í Bretlandi og urðu margir til að minna á að það hefði fyrst verið í fyrra sem Líbýumenn féllust á að greiða bætur fyrir hryðjuverkið yfir skoska bænum Lockerbie árið 1988 þegar flugumenn á vegum Gaddafis sprengdu í loft upp þotu með þeim afleiðingum að 270 fórust. Er það mannskæðasta hryðjuverk í sögu Evrópu. Þá þótti ýmsum ekki við hæfi að breski forsætisráðherrann færi beint á fund Gaddafis eftir að hafa verið viðstaddur minningarathöfn um þá sem fórust í árásum hryðjuverkamanna í Madríd fyrr í mánuðinum.

Breskur forsætisráðherra hefur aldrei sótt Líbýu heim frá því að landið hlaut sjálfstæði árið 1951. Gaddafi hefur stjórnað landinu frá 1969. Allt þar til í fyrra hafa stjórnvöld á Vesturlöndum talið hann í hópi útlaga og hryðjuverkaforingja.

Trípólí. AFP.