Jónas Bjarnason
Jónas Bjarnason
Hvaða tilgangi þjónaði að tengja bryggjumálið við kynningu á hugmyndum um tónlistarhöll?

SKIPLAGSMÁL Reykjavíkur eru mjög mikilvæg og þarf ekki að rökstyðja frekar. Formaður skipulagsnefndar borgarinnar er Steinunn Valdís Óskarsdóttir (SVÓ), en óvenju tíðrætt hefur verið um þau mál að undanförnu og er það vel, betra en þögnin ein og ákvarðanir fyrir lokuðum tjöldum. Seinni partinn í febrúar sl. komu þau fram í sjónvarpi, hún og formaður Höfuðborgarsamtakanna, Örn Sigurðsson (ÖS) arkitekt. Til umræðu var fyrirhuguð færsla Hringbrautar við Landspítala til suðurs; flestir vita að það hefur staðið til lengi, en ekki er öllum ljóst hvers vegna. Höfundur þessa pistils hefur haldið að það eigi að gera vegna aukinna þarfa á spítalalóðinni; um þau mál deila vart þeir sem ekki til þekkja; heilbrigðismál hafa forgang. ÖS vill setja Hringbrautina í stokk, en það mun væntanlega þýða, að verulegur hluti bílaumferðar verði grafinn niður á svæðinu í stokk eða undirgöng af einhverju tagi. Með því móti væri unnt að koma í veg fyrir að Hringbraut færist öll út í Vatnsmýrina og taki hluta besta svæðisins; ÖS bað áheyrendur um að ímynda sér hvað það þýddi ef tekin yrði rák, ígildi Miklubrautar í Kringlumýri að breidd, sunnan megin við Tanngarð, ca 100 metrar að breidd (áætl. höf.) með akbrautum, eyjum, gangstígum og hjólreiðabrautum svo og trjáröðum ásamt grasköntum. Með þessu færi dýrmætt miðborgarland til spillis og samband á milli borgarhluta beggja vegna gert bagalegt. SVÓ sagði að þetta mál hefði farið í íbúakynningu. Hver var sú íbúakynning og hverjir eru þeir íbúar, sem hafa þar beina grenndarhagsmuni? Málið er flókið skipulagsatriði, sem varðar alla borgarbúa og hjarta miðborgarinnar. Hún sagði að allt í lagi væri að hlusta á og ræða sjónarmið ÖS, en málið væri komið í útboð; þ.e. of seint. Það var og.

Ný sjónarmið

Fáeinum dögum seinna birtist grein í Mbl. eftir Stein Jónsson lækni, sem taldi að koma mætti vaxandi þörfum Landspítala fyrir í Fossvogi við hlið eða í grennd við Borgarsjúkrahús. Sameining sjúkrahúsanna breytir öllum forsendum og sæmst væri að taka málið upp umsvifalaust, þrátt fyrir útboð; stöðva hefði átt það fyrir löngu. Ekki er ljóst í hvaða hlutverki SVÓ er í raun í þessu máli; hún virðist leika það með flaustri og reigingi.

Þann 24.2. sl. var haldinn kynningarfundur um tónlistarhús og miðborgarskipulag í ráðhúsi borgarinnar og húsfyllir var; þar virtist SVÓ vera í fyrirsvari; ekkert tækifæri gafst fyrir óbreytta íbúa að koma á framfæri spurningum. Að fjalla um skipulag miðborgarinnar er að sjálfsögðu gott mál, en SVÓ tók það fram og ítrekaði, að um væri að ræða aðeins hugmyndir sem sýndar voru; þær virðast hafa verið gerðar af fagfólki utan borgarinnar. Síðan kom hún fram í þætti á Útvarpi Sögu 3.3. sl. og talaði þá um áætlanir og ræddi m.a. um "viðlegukant" fyrir skemmtiferðaskip samhliða Sæbraut. Á ráðhúsfundinum mátti sjá á teikningum arkitekts mjóa bryggju þriðjung úr kílómetra að lengd og eina 100 metra frá landi, frá Ingólfsstræti að Sólfari. Þau orð sem SVÓ hafði um það atriði voru að með því móti gætu skemmtiferðaskip lagst að landi í miðborginni; einhvern veginn virtist tómahljóð í tali hennar um viðlegukant, rétt eins og um smámál væri að ræða, hún ber greinilega ekki skynbragð á það; það snýst um nýja höfn. Benda má henni á að sú bryggja væri úti fyrir þéttustu byggð á öllu Íslandi, með öllum stórhýsunum í Skuggahverfi með íbúafjölda upp á ca tvö þúsund manns; allir Reykvíkingar vita og sjá hvað er að gerast á lóð Eimskipafélagsins, hæstu íbúðabyggingar landsins í smíðum. Í hlutverki sínu ætti formaðurinn nú að kynna væntanlegum íbúum á þessu svæði rækilega hvað eru hugmyndir, tillögur eða áætlanir áður en þeir kaupa sér íbúðir á svæðinu.

"Viðlegukanturinn" úti fyrir Sæbraut var teiknaður mjór og nettur með mjórri landtengingu. Þetta er allt í skötulíki og vanhugsað mál. Um væri að ræða risamannvirki á tuga metra dýpi sem yrði að vera miklu breiðari en sýnt var vegna allra rútubílanna sem streyma að skemmtiferðaskipum; þeir þurfa að geta snúið við á bryggjunni og mæst á tengingum við Sæbrautar; svo þarf slaufur og fleira. Einum atvinnubílstjóra, sem hafði velt þessu fyrir sér, varð að orði um þetta mál: "Þetta er bara vitleysa." Ætli það væri ekki viturlegra að finna "viðlegukant" fyrir SVÓ í framhaldi af Sundahöfn til beggja átta, við Skarfaklett og framan við Hrafn Gunnlaugsson í Laugarnesi. Tenging við miðborg? Á kannski að gera landgöngufólki af skemmtiferðaskipum skylt að sækja tónleika í tónlistarhúsi í Austurhöfn og kaupa pylsu á Lækjartorgi? Með sama skipulagshraða og er þá verður miðborg Reykjavíkur komin langt í austur þegar til kastanna kemur.

Þegar SVÓ talar fyrir borginni, almenningi, fjárfestum og skipulagsfræðingum er við hæfi að hafa hluti sæmilega á hreinu og hver á að borga eða líða fyrir og hvaða skipulagsfræði að baki liggi. Hvaða tilgangi þjónaði að tengja bryggjumálið við kynningu á hugmyndum um tónlistarhöll? Kannski muna einhverjir eftir því hvaða fyrirheit voru gefin í stafni Kvennalistans í viðræðum um myndun R-listans fyrir áratug.

Jónas Bjarnason skrifar um skipulagsmál

Höfundur er efnaverkfræðingur.