NÝ LÖG um erfðafjárskatt sem taka gildi frá og næstu mánaðamótum taka þá einnig til búskipta þeirra sem sitja í óskiptu búi, fari skiptin fram eftir 1. apríl. Í frumvarpi fjármálaráðherra var hins ekki gert ráð fyrir að lögin tækju gildi fyrr en 1. júlí en gildistaka laganna var færð fram í meðförum þingsins.
Þá miðast verðmæti eigna við dánardag í nýju lögunum en ekki skiptadag eins og í frumvarpi fjármálaráðherra en það opnar fyrir þann möguleika að erfingjar geti þurft að greiða skatt af hærri upphæð en þeir fá síðan raunverulega í arf.
Sitji ekkja eða ekkill í óskiptu búi, sem í er umtalsvert magn verðbréfa, getur munað miklu á skattgreiðslum ef næst að skipta búinu fyrir 1. apríl því eftir þann tíma greiða erfingjar 5% erfðafjárskatt af markaðsvirði bréfanna en ekki erfðafjárskatt sem reiknast af nafnvirði þeirra en eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær getur þarna munað háum upphæðum.
Hjá sýslumanninum í Reykjavík fengust þær upplýsingar að engan veginn væri útilokað að ganga frá skiptum á búi fyrir 1. apríl að því gefnu að fólk hefði öll nauðsynleg gögn tilbúin - erfitt gæti þó reynst að tryggja slíkt ef fjöldi manns leitaði til embættisins til að láta ganga frá búskiptum.
Í frumvarpinu sem fjármálaráðherra mælti fyrir var gert ráð fyrir að erfðafjárskattur skyldi reiknaður út miðað við verðmæti arfs við skiptalok en þetta atriði breyttist í meðförum þingsins og í nýju erfðafjárlögunum er miðað við dánardag en ekki skiptadag. Þar sem gengi verðbréfa getur bæði hækkað og lækkað þýðir þessi breyting að erfingjar geta nú hugsanlega lent í því að greiða skatt af hærri upphæð en þeir fá greiddan í arð við búskipti því oft getur liðið töluverður tími frá andláti og þangað til gengið hefur verið frá skiptum.
Eigi dánarbú, svo dæmi sé tekið, umtalsverða hlutabréfaeign í fyrirtæki, sem lækkar verulega á umræddum tíma, myndu erfingjar í reynd greiða skatt af meira verðmæti en þeir fengju í arf.