Unnið er hörðum höndum að því að gera aðstöðuna á BSÍ tilbúna.
Unnið er hörðum höndum að því að gera aðstöðuna á BSÍ tilbúna. — Morgunblaðið/Sverrir
KYNNISFERÐIR munu flytja í Umferðarmiðstöðina, BSÍ, og mun afgreiðsla þeirra þar verða opnuð hinn 1. apríl nk. Flugrútan mun því fara frá BSÍ frá og með þeim degi, í stað þess að fara frá Hótel Loftleiðum eins og hún gerir í dag.

KYNNISFERÐIR munu flytja í Umferðarmiðstöðina, BSÍ, og mun afgreiðsla þeirra þar verða opnuð hinn 1. apríl nk. Flugrútan mun því fara frá BSÍ frá og með þeim degi, í stað þess að fara frá Hótel Loftleiðum eins og hún gerir í dag.

Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir starfsemi fyrirtækisins eiga best heima í samgöngumiðstöð eins og BSÍ. Hann segir húsnæði Kynnisferða á Hótel Loftleiðum ekki lengur henta fyrir starfsemina.

"Það hefur verið talað um það í mörg ár að Kynnisferðir komi þangað [í BSÍ], en ásýnd hússins og umgjörð hefur kannski ekki verið nógu fýsileg," segir Þráinn. Nú er unnið í endurbótum á húsnæðinu og umhverfinu sem ætti að bæta bæði aðstöðuna á staðnum og ásýnd hússins.

Kynnisferðir munu taka að sér pakkaafgreiðslu og sölu á sérleyfisferðum um allt land, auk þess sem fyrirtækið mun áfram bjóða upp á eigin ferðir og reka flugrútuna. Þráinn segir markmiðið að bæta þjónustuna, t.d. muni nýtt leiðakerfi Strætó og flugrútan bæta samgöngur við miðstöðina.