ÚRSKURÐUR samkeppnisyfirvalda Evrópusambandsins, ESB, varðandi viðskiptahætti bandaríska hugbúnaðarfyrirtækisins Microsoft, gildir á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og þar með einnig hér á landi. Guðmundur Sigurðsson, forstöðumaður samkeppnissviðs Samkeppnisstofnunar, staðfesti í samtali við Morgunblaðið að úrskurðurinn myndi gilda á Íslandi. Í ákveðnum tilvikum geta ákvarðanir í samkeppnismálum, sem teknar eru af framkvæmdastjórn ESB eða Eftirlitsstofnun EFTA, gilt á öllu efnahagssvæðinu.
Yfirvöld samkeppnismála hjá ESB úrskurðuðu fyrr í vikunni að Microsoft skyldi greiða nærri 44 milljarða íslenskra króna í sekt fyrir að misnota raunverulega einokunarstöðu sína á markaði fyrir stýrikerfi einmenningstölva. Fyrirtækinu er jafnframt gert að skilja á milli Windows-stýrikerfisins og Media Player-forritsins fyrir hljóð og myndskrár. Var Microsoft gefinn 90 daga frestur til að skilja þarna á milli. Fyrirtækinu var jafnframt gert að veita öðrum fyrirtækjum upplýsingar svo þau geti framleitt vefþjóna, sem nota má með Windows.