SVÞ, Samtök verslunar og þjónustu, hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að MasterCard-Kreditkort hafi á sl. 6 mánuðum nærri tvöfaldað þjónustugjöld sín á verslanir og þjónustuaðila sem taka við debetkortagreiðslum.

SVÞ, Samtök verslunar og þjónustu, hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að MasterCard-Kreditkort hafi á sl. 6 mánuðum nærri tvöfaldað þjónustugjöld sín á verslanir og þjónustuaðila sem taka við debetkortagreiðslum.

"Fyrirtækið hefur hækkað gjaldskrána tvisvar á skömmum tíma án þess að tilkynna söluaðilum um það fyrirfram. Þjónustugjald söluaðila á færslu með debetkorti getur numið allt að 212 krónum eftir síðustu hækkun," segja samtökin. Mest er hækkunin sögð gagnvart þeim verslunum og þjónustuaðilum sem beina kreditkortafærslum til danska greiðslumiðlunarfyrirtækisins PBS. Segja samtökin að Mastercard-Kreditkort hegni þeim söluaðilum með hæstu gjöldum, sem einungis beini debetkortaviðskiptum sínum til fyrirtækisins en ekki kreditkortafærslum.

Samkvæmt gjaldskrá Kreditkorta hf., sem tók gildi 18. þessa mánaðar greiða þeir seljendur sem aðeins taka debetkort, að lágmarki 5 krónur og að hámarki 212 krónur fyrir hverja færslu. Seljendur sem taka bæði debet- og kreditkort greiða hins vegar frá 4 krónum upp í 190 krónur á færslu.

"SVÞ hafa gert kröfu um að kortafyrirtækin þurfi að afla samþykkis Samkeppnisstofnunar fyrir öllum veigameiri breytingum á gjaldskrám söluaðila þar sem þeir síðarnefndu hafa ekki val um annað en að veita kortum viðtöku. Það er að mati samtakanna lágmarkskurteisi að fyrirtæki tilkynni viðskiptavinum sínum um áformaðar gjaldskrárbreytingar með sannanlegum hætti," segir í tilkynningu SVÞ.