Fjölskyldan sá um sýningarbás Austurbæjarskóla: Jayantha, Thejani og Irangane.
Fjölskyldan sá um sýningarbás Austurbæjarskóla: Jayantha, Thejani og Irangane.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Thejani Lankathilaka í Austurbæjarskóla tók þátt í sýningu móðurskóla í Reykjavík - sem kynna frumkvöðlastarf sitt fyrir áhugasömum í Borgarleikhúsinu.

Allir eru góðir í einhverju og enginn er góður í öllu," sagði nemandi á kynningu móðurskóla í Reykjavík. Sýningin heldur áfram í dag í Borgarleikhúsinu og á morgun. Einnig eru nokkrir skólar með opið hús.

Blaðamaður vatt sér á sýninguna í anddyri Borgarleikhússins. Sýningin er litrík og sýnir hugvit kennara, nemenda og foreldra. Hún er hólfuð niður í bása og við einn þeirra sat karlmaður og skapaði muni úr pappír með fíngerðu munstri. Hann er foreldri barns í Austurbæjarskóla og kennir þetta handverk þar.

"Ég bý til hluti sem ég finn upp sjálfur og mér finnst gaman að kenna börnum að skapa með pappír," segir K. Jayantha Lankathilaka og er iðinn við verkið. Bergur Tómasson kennari við skólann segir að Jayantha hafi t.d. skreytt Austurbæjarskóla fyrir síðastliðin jól, t.d. með páfuglum úr pappír.

Jayantha og fjölskylda eru frá Sri Lanka þar sem hann kenndi áður dans og krikket og vann á matsölustað. Konan hans Irangane kom hingað fyrir þremur árum til að vinna á Elliheimilinu Grund, og fyrir ári kom maðurinn hennar og fjögur börn: þrír synir og dóttir. Hún sagðist mjög ánægð að Jayantha hefði fengið vinnu og þakkar það skólastjóra og starfsfólki í Austurbæjarskóla.

Á sýningunni í Borgarleikhúsinu býður Irangane upp á gómsætar bollur sem hún bakar eftir uppskrift frá Sri Lanka, gerðar úr kartöflum, fiski, olíu og eggjum. "Við rákum matsölustað á litlu hóteli á Sri Lanka og unnum þar öll," segir hún.

Dóttir þeirra var með þeim á sýningunni en hún heitir Thejani Lankathilaka og er í 5. J.M. í Austurbæjarskóla. "Ég hef verið hér í eitt ár, kom í febrúar í fyrra," segir hún en kennarinn hennar heiti Jónína Margrét Jónsdóttir. "Tveir bræður mínir eru í Austurbæjarskóla en sá elsti er í Iðnskólanum," segir hún og bætir við að hún sé að verða 12 ára.

"Mér finnst gaman að læra íslensku og þakka sérstaklega Lenku og Dagnýju sem kenna mér hana," segir hún en henni finnst einnig mjög gaman í stærðfræði. Hún er ánægð í skólanum og segist læra að smíða, syngja og dansa. "Ég dansaði t.d. á sýningu í Sumarskólanum síðasta sumar, og ég hef einnig dansað fyrir forseta Íslands," segir hún.

Fræðsla um móðurskólana

Þeir sem vilja kynna sér fjölmenningarlega kennsluhættu í Austbæjarskóla geta farið þangað í heimsókn í dag á opið hús milli kl. 8.05 og 10.30. Eða skotist í Borgarleikhúsið og kynnt sér móðurskólana í Reykjavík.

Móðurskólar í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2003-2004 eru: Háteigsskóli í list- og verkgreinum, Korpuskóli í þróun kennsluhátta, Melaskóli í náttúrufræðum - tækni og vísindum, Hamraskóli í tengslum leik- og grunnskóla, Hlíðaskóli í list- og verkgreinum, Foldaskóli í nýsköpun, Austurbæjarskóli í fjölmenningarlegum kennsluháttum, Breiðagerðisskóli í þróun kennsluhátta, Álftamýrarskóli í tungumálum og Selásskóli í umhverfismennt.

www.grunnskolar.is

guhe@mbl.is