LESBÓK Morgunblaðsins verður með nokkru öðru sniði á morgun en lesendur eiga að venjast. Hún er að þessu sinni helguð myndlistarverkum og skrifum kunnra erlendra og innlendra listamanna, auk tveggja sýningarstjóra, sem eyddu saman nokkrum dögum á Eiðum á Austurlandi á liðnu hausti. Gestgjafar þeirra þar voru þeir Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi og Sigurður Gísli Pálmason athafnamaður sem eins og kunnugt er hafa fest kaup á landi og húsakosti staðarins með uppbyggingu á sviði menningarmála í huga.
Mótun menningarstarfsemi
Markmið dvalarinnar var öðrum þræði að móta farveg fyrir hugmyndafræðilega umræðu og viðburði á sviði lista á Eiðum er skilað gæti einhverju markverðu til staðarins og jafnframt til menningar á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Reynt var að skapa svigrúm til þess að gestirnir gætu kynnst staðháttum og þeim möguleikum sem hugsanlega er hægt að nýta við frekari mótun menningarstarfsemi á Austurlandi í framtíðinni.Í samstarfi við Morgunblaðið var afráðið að myndlistarmennirnir myndu leggja fram verk til birtingar í Lesbók, sem annarsvegar yrði dreift til lesenda blaðsins hér á landi, en hinsvegar í enskri þýðingu til áhrifamanna á sviði myndlistar erlendis. Með samstarfi við þessa listamenn er það markmið Morgunblaðsins að leggja sitt af mörkum sem virkur drifkraftur í íslensku menningarlífi og skapa vettvang fyrir myndlistarviðburð þar sem svið alþjóðlegra lista og innlendra skarast á einstakan máta.
Margir þeirra sem koma við sögu þessa verkefnis hafa þegar getið sér gott orð í hinum alþjóðlega listheimi, svo sem Ólafur Elíasson og Doug Aitken, en Aitken vann meðal annars til verðlauna á Feneyjatvíæringnum árið 1999. Þeir Pash Buzari, Philippe Parreno, Carsten Höller og Anri Sala eru líka vel kunnir á alþjóðavettvangi og hafa sýnt á virtum og þekktum söfnum víða um heim. Þess má geta að textann í verki Anris Sala gerði landi hans, albanski listamaðurinn Edi Rama, sem nú er borgarstjóri í Tírana, höfuðborg Albaníu. Verk Carstens Höller brýtur af sér viðjar þessarar sérútgáfu því hann notar fréttasíðu úr Lesbók síðustu helgar sem birt verður aftur óbreytt á morgun og síðan að viku liðinni.
Íslensku listamennirnir, þau Gabríela Friðriksdóttir, Dagur Kári Pétursson, Elín Hansdóttir, Hekla Dögg Jónsdóttir og Þorvaldur Þorsteinsson hafa víða komið við í íslensku listalífi, en öll hafa þau líka látið til sín taka með eftirminnilegum hætti utan landsteinanna. Sýningarstjórarnir Hans Ulrich Obrist, sem starfar hjá Nútímalistasafninu í París og Jessica Morgan, sem starfar hjá Tate Modern í London, njóta mikillar virðingar erlendis, en Morgan kemur einnig til með að gegna veigamiklu hlutverki í íslensku myndlistarlífi á næstunni þar sem hún stýrir myndlistarþætti Listahátíðar vorið 2005. Auk listamannanna og sýningarstjóranna lagði Steve Christer, arkitekt fram verk í þessa Lesbók og þau Sigurjón Sighvatsson og Fríða Björk Ingvarsdóttir, blaðamaður, eiga þar greinar.