Jónas Ingimundarson og Snorri Wium æfa efnisskrá tónleikanna sem verða í Salnum á morgun.
Jónas Ingimundarson og Snorri Wium æfa efnisskrá tónleikanna sem verða í Salnum á morgun. — Morgunblaðið/Jim Smart
Snorri Wium tenórsöngvari og Jónas Ingimundarson píanóleikari halda tónleika í Salnum á morgun, laugardag kl. 16. Þeir flytja lagaflokkinn "Dichterliebe", Ástir skáldsins, eftir Robert Schumann við ljóð Heine.

Snorri Wium tenórsöngvari og Jónas Ingimundarson píanóleikari halda tónleika í Salnum á morgun, laugardag kl. 16. Þeir flytja lagaflokkinn "Dichterliebe", Ástir skáldsins, eftir Robert Schumann við ljóð Heine. Að auki flytja þeir íslensk sönglög og átta lög eftir Tryggva M. Baldvinsson og hafa sum þessara laga ekki verið flutt áður.

Lagaflokkur Schumanns er af mörgum talinn eitt fegursta verk tónskáldsins og meðal mest fluttra sönglagaflokka sögunnar. Hefur þú sungið hann áður, Snorri?

"Nei ég hef aldrei flutt hann áður og hlakka til að takst á við flutninginn með píanóleikara sem hefur yfir jafnmikilli reynslu og færni að búa og Jónas. Þarna er farið á allan tilfinningaskalann og fékk ég aðeins að kynnast því sl. mánudag á námskeiði Jónasar "Hvar ertu tónlist". Þar var lagaflokkurinn kynntur og vorum við Hjalti Rögnvaldsson leikari gestir Jónasar. Það er alveg dásamlegt að fá að snerta á verkunum fyrir tónleika, eins og gert var þarna, en það er samt aldrei generalprufa fyrir tónleika. Alveg sama hversu lengi maður æfir, þótt maður vildi þá getur maður ekki gefið allt, fyrr en á lokastund, fyrir framan áheyrendur. Þá fyrst stendur maður frammi fyrir raunveruleikanum."

Hvers vegna náðu þeir svona vel saman Schumann og Heine?

"Þeir voru að mörgu leyti líkir persónuleikar og bjuggu yfir svipuðum skapgerðareinkennum m.a. voru báðir ofurviðkvæmir. Þegar Schuman semur lagaflokkinn árið 1840 er ástarsamband hans við Clöru Wieck í fullum blóma, enda gengu þau í hjónaband seinna það ár. Schumann var þá þrítugur og hafði þá þegar samið mörg af glæsilegustu verkum sínum fyrir píanó. Undir áhrifum af þeim fölskvalausu tilfinningum sem hann bar til hennar sneri hann sér af alvöru að sönglögum. Þessi ósvikna tilfinning fyrir skáldskap gerði honum kleift að komast í beint samband við ástríðuna, biturleikann, þunglyndið og tilfinningaauðgina, sem einkenndu skáldskap Heines. Ljóðin eru 16 og spanna ólík svið, allt frá því að vera lítil viðkvæm lög yfir í meiri dramatík. Það sem mér finnst einkennandi við þennan ljóðaflokk er að þarna ríkir fullt samræmi frá upphafi til enda. Það er ekki bara í ljóðunum sem tilfinningum er lýst, heldur segir músíkin jafnmikið, ef ekki meira, um þá tilfinningadýpt sem um ræðir."

Eru flytjendur ekki uppgefnir eftir svona tilfinningaríka tjáningu?

"Jú, það er engu um það logið, það tekur á. Til þess að koma í veg fyrir að maður fari grátandi heim eftir tónleikana fetum við okkur eftir hlé útúr tilfinningahafinu yfir í íslensku sönglögin. Fyrst flytjum við fjögur kunn sönglög eftir Sigfús Einarsson, Gígjuna, Draumalandið, Sofnar lóa og Augun blá. Þau eru samin á svipuðum tíma og eru keimlík en ég hef ekki flutt þau í heild áður. Síðan er skrefið stigið í átt að kómedíunni því við flytjum í lokin átta ljóð eftir Þórarin Eldjárn við lög Tryggva M. Baldvinssonar. Lögin eru samin á árabilinu 1995-2001 en Tryggvi hefur ekki gefið þau út sem ljóðaflokk, en þau eru öll samin í svipuðum anda, nokkurs konar revíustíl. Bæði húmor í texta og tónlist, þeir tveir, Tryggvi og Þórarinn, eru miklir húmoristar."

Auk þess að hafa sína tónlistarmenntun er Snorri einnig fullnuma málarameistari og starfar við það þegar söngnum sleppir. Hvernig ætli það sé þegar hann syngur, sér hann þá liti?

"Já stundum. Litir geta kallað á tóna og tónar á liti. Ég myndi t.d. gefa ljóðaflokki Schumans blóðrauðan tón, en pensillinn er heima, tónalaus," segir Snorri og skellihlær.

helgag@mbl.is