SIGURÐUR Örlygsson myndlistarmaður opnar sýningu í Listhúsi Ófeigs, Skólavörðustíg 5, kl. 15 á morgun, laugardag.
Á sýningunni verða 25-30 nýjar myndir en í verkum sínum beitir listamaðurinn samblandi af ljósmynd, frjálslega unnu málverki og skúlptúr.
Í myndunum má sjá þróun þeirra aðferða og tækni sem eru einkennandi fyrir Sigurð enda þótt viðfangsefnið sé annað og nýtt. Nú sækir hann myndefni sitt í úrgang neyslusamfélagsins, sem hlaðist hefur upp og er orðið eitt mesta umhverfisvandamál vestrænnar menningar.
Hlutum sem lokið hafa hlutverki sínu breytt í nýja hluti
Með markvissum hætti nýtir hann hluti sem lokið hafa hlutverki sínu í myndirnar, leikur sér með formið og breytir í nýja.Sýningin stendur til 21. apríl. Hún er styrkt af endurvinnslu- og þjóðþrifafyrirtækinu Hringrás.