RANNSÓKNARNEFND flugumferðaratvika í Bretlandi telur að flugstjóri breskrar herþotu hafi ekki gætt að hækkun þotu sinnar meðan hann íhugaði breytta flugleið suðaustur af Prestwick í Skotlandi 30.

RANNSÓKNARNEFND flugumferðaratvika í Bretlandi telur að flugstjóri breskrar herþotu hafi ekki gætt að hækkun þotu sinnar meðan hann íhugaði breytta flugleið suðaustur af Prestwick í Skotlandi 30. júlí í fyrra og fór hann því upp í svæði sem hann hafði ekki heimild til. Málið tengist B737-þotu Íslandsflugs, en hæðaraðskilnaður vélarinnar og bresku vélarinnar fór niður í 600 fet og fjarlægðin í eina sjómílu sem er mun minni aðskilnaður en reglur segja til um.

Málsatvik eru rakin í nýrri skýrslu nefndarinnar og eru þau í stuttu máli sem hér segir: Þota Íslandsflugs var að komast á lokastefnu í aðflugi að flugvellinum í Prestwick. Var þotan að lækka í 6.000 feta hæð þegar árekstrarvari hennar gefur skipun um að sveigja til hægri og lækka í flugið Flugstjóri þotunnar fer að fyrirmælunum og í 5.500 feta hæð var hættan liðin hjá og honum gefin heimild á ný til að halda aðfluginu áfram.

Herþotur í árásaræfingum

Hawk-herþotan var að æfa árás á þrjár aðrar herþotur á tilteknu svæði upp að 4.000 fetum yfir hæðóttu landslagi en í sjónflugi og undir stjórn flugumferðarstjórnar herstöðvar þotanna. Nokkuð var þó um skýjamyndanir á þessu svæði. Við erfiðar æfingar þar sem reynir mjög á verður flugstjóri Hawk-þotunnar að nokkru fyrir skyntruflunum og ákveður að hækka flugið til að ná áttum og fer þá upp fyrir 4.000 fet. Er hann kominn í 6.500 feta hæð sem var mun ofar en það svæði sem honum var ætlað og tilkynnti hann ekki flugumferðarstjórn sinni um breytingarnar. Var herþotan þar með komin í svipaða hæð og þota Íslandsflugs og stefndu vélarnar hvor móti annarri.

Sem fyrr segir beindi árekstrarvari Íslandsflugsþotunnar flugmönnum hennar til hægri og hættunni var afstýrt. Flugatvikið er skilgreint sem atvik B sem þýðir að ekki hafi verið hætta á árekstri en fjarlægð milli vélanna það lítil að hættuástand skapaðist. Fram koma í bresku skýrslunni nokkur vonbrigði með svör flugumferðarstjórnar herstöðvarinnar en hún hafi þó ekki afsakað flug herþotunnar upp í almennt flugsvæði og hafi upplýst áhafnir sínar um það atriði.

Flugmenn Íslandsflugs tilkynntu atvikið Rannsóknarnefnd flugslysa, RNF. Segir Þormóður Þormóðsson rannsóknarstjóri að RNF hafi tilkynnt bresku flugslysanefndinni um atvikið og hún fengið það rannsóknarnefnd flugumferðaratvika til meðferðar.