HÁTT í þrjátíu lögreglumenn og löglærðir fulltrúar af Norðurlandi sóttu fund á Akureyri þar sem til umfjöllunar var gagnrýni rannsóknarnefndar umferðarslysa á rannsóknir lögreglunnar á alvarlegum umferðarslysum, en nefndin hefur sett frá slíka gagnrýni á...

HÁTT í þrjátíu lögreglumenn og löglærðir fulltrúar af Norðurlandi sóttu fund á Akureyri þar sem til umfjöllunar var gagnrýni rannsóknarnefndar umferðarslysa á rannsóknir lögreglunnar á alvarlegum umferðarslysum, en nefndin hefur sett frá slíka gagnrýni á undanförnum árum.

Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri, segir ljóst að

mjög mikilvægt sé að rannsóknir slíkra mála séu faglega og vel unnar. Öllum lögregluembættum hefði verið verið send gagnrýni nefndarinnar á þau mál sem til rannsóknar voru í hverju umdæmi fyrir sig.

Í ljósi þessa var ákveðið að halda fund með lögreglumönnum á Norðurlandi um rannsóknir alvarlegra umferðarslysa. Á fundinn mættu Ágúst Mogensen, framkvæmdastjóri rannsóknarnefndar umferðarslysa, og Eiríkur Hreinn Helgason, yfirlögregluþjónn í Lögregluskóla ríkisins.

Fóru þeir yfir gagnrýni nefndarinnar á rannsóknir umferðarslysa og hvaða atriði það væru að mati nefndarinnar sem koma þyrftu fram í rannsóknum umferðarslysa. Farið var yfir gagnrýni nefndarinnar á þau mál sem hafa verið rannsökuð af lögregluembættunum á Norðurlandi og hvað betur hefði mátt fara að áliti nefndarinnar. Skipst var á skoðunum og þau atriði sérstaklega rædd sem gagnrýnin hafði beinst að.

Fundarmönnum var svo skipt í hópa og þeir látnir fara yfir rannsókn umferðarslyss sem fengið var frá embætti utan Norðurlands. Var síðan gagnrýni fundarmanna borin saman við gagnrýni nefndarinnar á sömu rannsókn.

Var það mál manna, að sögn Daníels, að fram hefðu farið gagnleg og málefnaleg skoðanaskipti í þessum mikilvæga málaflokki.