Ónúmeruð hús ÉG vil hvetja húseigendur í Reykjavík til að hafa númeraplötu á húsum sínum, bæði íbúðarhúsum og ekki síður verslunarhúsum.

Ónúmeruð hús

ÉG vil hvetja húseigendur í Reykjavík til að hafa númeraplötu á húsum sínum, bæði íbúðarhúsum og ekki síður verslunarhúsum.

Ég taldi mig þekkja nokkuð vel til hér í borginni, en allra síðustu ár hafa ýmsar breytingar verið gerðar, bæði á húsunum sjálfum og skipulagi gatna. Einnig hafa ýmsar verslanir flutt sig um set og því erfitt að finna þær aftur þó að hægt sé að finna götunúmerið í símaskrá. Undanfarið hef ég lent í miklum vandræðum í leit minni að verslunum, læknastofum og öðrum þjónustustöðum. Húsin voru ekki merkt með númeraplötu og því erfitt að finna þau þó að ég vissi númerin á húsunum sjálfum. Þetta ættu eigendur þjónustustaða að hafa í huga og setja númer utan á húsin til að auðvelda viðskiptavinum að rata til þeirra.

Guðfinna.

Ekki við hæfi

ÉG er svo gáttuð á Spaugstofunni sl. laugardag og að gert skyldi grín að strandinu hjá Baldvini Þorsteinssyni. Ég er sjómannskona og finnst þetta ekki við hæfi.

Sjómannskona.

Áfallahjálp fyrir Sjálfstæðismenn

ÞEGAR Ólafur Ragnar Grímsson var fyrst kjörinn forseti Íslands var það svo gríðarlega mikið áfall fyrir Sjálfstæðismenn að þeim hefði áreiðanlega ekki veitt af því að fá áfallahjálp. Og það er í rauninni ekki um seinan að veita þeim hana eftir öllum látunum út af heimastjórnarafmælinu margumrædda að dæma.

Það ber því miður ekki á öðru en að það sé Sjálfstæðismönnum mikið kappsmál að leggja forseta Íslands í stöðugt einelti. Væri ekki allri þjóðinni fyrir bestu að því færi að linna.

Halldór Þorsteinsson,

Rauðalæk 7.

Eyrnalokkur týndist

EYRNALOKKUR týndist föstudaginn 19. mars á leiðinni frá kanadíska sendiráðinu á Hallveigarstöðum, Túngötu 14, að Melabúðinni, Hagamel.

Skilvís finnandi hafi samband í síma 5756500 eða 8956120.

Skíðapoki tekinn í misgripum

SÁ eða sú sem tók í misgripum skíðapoka með Head-skíðum, Leke-skíðastöfum og Scott-legghlífum merkt Líneyju við Skíðahótelið í Hlíðarfjalli á Akureyri laugardaginn 21. mars er vinsamlegast beðinn að hringja í síma 4834810 eða 8214810. Þeirra er sárt saknað af eiganda vegna komandi unglingameistaramóts.