Ákærði leiddur í fylgd lögreglumanna til dómsuppkvaðningar í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun.
Ákærði leiddur í fylgd lögreglumanna til dómsuppkvaðningar í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun. — Morgunblaðið/Golli
HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi í gær hálffertugan karlmann, Ágúst Magnússon, í 5 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn sex drengjum og brot á barnaverndarlögum. Um er að ræða einn þyngsta dóm sem kveðinn hefur verið upp í kynferðisbrotamáli hérlendis.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi í gær hálffertugan karlmann, Ágúst Magnússon, í 5 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn sex drengjum og brot á barnaverndarlögum. Um er að ræða einn þyngsta dóm sem kveðinn hefur verið upp í kynferðisbrotamáli hérlendis. Í málinu setti ákæruvaldið fram sjaldgæfa kröfu um öryggisvist að lokinni afplánun, en henni var hafnað. Ákærði hefur tekið sér 4 vikna áfrýjunarfrest.

Brotin voru framin á árunum 1999-2003. Í málinu var ákærði ennfremur sakfelldur fyrir að hafa í vörslu sinni myndbandsspólur, DVD-mynddiska, ljósmyndir og hreyfimyndaskrár sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Á nokkrum myndbandsspólum sást ákærði í kynferðislegum athöfnum með ungmennum.

Ákærði var dæmdur til að greiðafimm fórnarlömbum sínum 1,7 milljónir króna í bætur.

Tældi drengina með blekkingum á yfirvegaðan og skipulegan hátt

Í dómi héraðsdóms er rakið hvernig ákærði á skipulegan og yfirvegaðan hátt og með blekkingum, tældi og/eða misnotaði drengina sem flestir höfðu litla sem enga reynslu á kynlífssviðinu. Þrátt fyrir að drengirnir stæðu illa félagslega og ættu við persónulega erfiðleika að stríða áður en þeir kynntust ákærða þótti koma skýrlega fram í framburðum þeirra, sálfræðiskýrslum og skýrslum vitna að með háttsemi sinni olli ákærði drengjunum sálrænu tjóni sem hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjálfsmynd þeirra og þroska, en nokkrir þeirra hafa upplifað mikla skömm og sektarkennd vegna brotanna. Þótti dóminum aðferðir þær sem ákærði beitti sýna einbeittan brotavilja hans í þeim tilgangi að fullnægja kynlífsórum sínum gagnvart drengjunum.

Greindur með alvarlega barnagirnd og þráláta kynóra

Miðað við lengd þeirrar refsivistar sem ákærði var dæmdur til féllst dómurinn ekki á þá kröfu ákæruvalds að nauðsyn bæri til að kveða á um það í þessu máli að ákærði skuli beittur öryggisráðstöfunum að refsivist lokinni. Krafan var sett fram á grundvelli þess að ákærði greindist með alvarlega barnagirnd og þráláta kynóra eftir að málið kom upp. Segir í skýrslu sálfræðings að hann ráði ekki við þessar kenndir sínar og sé því hætta á að mál af þessu tagi endurtaki sig.

Ákærða var gert að sæta upptöku á tveimur tölvum ásamt öllum fylgibúnaði, þar á meðal 5 hörðum diskum, 54 geisladiskum, 4 tölvudisklingum, 13 myndbandsspólum, 8 mm myndbandi og 160 útprentuðum ljósmyndum, sem lögregla lagði hald á á heimili hans við rannsókn málsins.

Málið dæmdu héraðsdómararnir Valtýr Sigurðsson sem dómsformaður, Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir. Verjandi ákærða var Guðmundur Ágústsson hdl. og sækjandi Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari hjá ríkissaksóknara.