— Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjópróf vegna strands Baldvins Þorsteinssonar fóru fram á Akureyri í gær. Fram kom hjá skipstjóra að hliðarskrúfa missti afl í skamma stund áður en nótin fór í skrúfuna.

Aaftari hliðarskrúfan á fjölveiðiskipinu Baldvini Þorsteinssyni EA missti afl í mjög skamma stund skömmu áður en skipið fékk nótina í skrúfuna. Þetta kom fram við sjópróf í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær vegna strands skipsins á Meðallandssandi aðfaranótt 9. mars síðastliðinn. Hliðarskrúfan, sem er rafdrifin frá aðalvél, náði fljótlega fullu afli og ekkert kom fram við sjóprófin sem benti til þess að þetta hafi valdið því að skipið fékk nótina í skrúfuna. Eins og fram hefur komið voru aðstæður á miðunum mjög erfiðar þegar óhappið varð.

Fjórir af skipverjum Baldvins komu fyrir dóminn í gær, Árni V. Þórðarson, skipstjóri, Leifur Kristján Þormóðsson, fyrsti stýrimaður, Kristján Ingi Sveinsson yfirvélstjóri og Brynjar Siguðsson annar vélstjóri.

Nótin fór í skrúfuna á augabragði

Árni greindi frá því að skipið hefði siglt frá Seyðisfirði og komið að suðurströndinni um kvöld. Fjölmörg skip voru við veiðar á þessum slóðum og var Baldvin að kasta á loðnu á 20 til 25 faðma dýpi, en nótin er 55 faðma djúp. Búið var að kasta 5 sinnum og varð óhappið þegar búið var að draga inn um þriðjung nótarinnar í 6. kasti. Árni sagði að þá hefði hliðarskrúfa skipsins misst afl, en það hefði einungis varað skamma stund, fullt afl hefði komist á nánast strax aftur. Á augabragði hefði nótin farið í skrúfuna og dregið niður í aðalvél skipsins og hann kallað út á vinnurás hvað væri að gerast. Bjarni Ólafsson AK hafi verið skammt undan og strax var hafist handa við að undirbúa að koma tóg milli skipanna. Sagði Árni það hafa gengið tiltölulega vel, en fljótlega eftir að Bjarni byrjaði að toga slitnaði tógin. Þá var reynt að koma snurpuvír á milli skipanna og sagði Árni það hafa gengið erfiðlega. Vegna bilunar í spili um borð í Bjarna Ólafssyni, var ekki hægt að halda við Baldvin með því. Snurpuvírinn var þá settur í fast um borð í Bjarna en hann slitnaði við átakið. Árni sagðist þá hafa tekið eftir því að skipið var komið upp á fyrstu grynninguna. "Skipið var aðeins farið að taka niðri," sagði hann.

Hann sagðist strax hafa kallað í Landhelgisgæsluna og verið í sambandi við menn þar, sem fylgdust með gangi mála og gáfu ráð. Þegar þarna var komið sagðist hann hafa hugsað um hvernig best væri að stýra skipinu upp í fjöruna,

lét setja út toghlerana og reyndi að haga því þannig að stefni skipsins sneri upp í fjöruna, en það hefði m.a. verið að ráði skipherra hjá gæslunni.

Grunnhugsunin hefði verið sú að þannig væri betra að hífa menn frá borði. Vildi hann fyrir alla muni reyna að forðast að skipið legðist þvert á fjöruna. Að lokum var akkeri kastað út. Árni sagðist hafa metið það þannig að ekki hafi þótt ástæða til að sleppa akkeri á meðan Bjarni Ólafsson var að toga í skipið, það hefði getað truflað þær aðgerðir sem voru í gangi.

Flestir í áhöfn voru komnir upp í brú þar sem þyrlunnar var beðið. Björgun frá borði gekk mjög vel, að sögn skipstjóra.

Allt gerðist mjög hratt

Jón Ingólfsson frá Rannsóknanefnd sjóslysa spurði m.a. um atvikið þegar hliðarskrúfan missti afl í augnablik. Árni sagði að við slíkar aðstæður mætti lítið út af bera, skipið hefði verið að draga þunga nót og allt gerst mjög hratt. Greindi Árni frá því að við skoðun á skipinu í Noregi nú í vikunni hefði komið í ljós trosnaður endi í hliðarskrúfunni, en hann vissi ekki hvort hann hafi orsakað það að skrúfan missti afl. Gunnar Arason skipstjóri, yfirhafnarvörður og meðdómari spurði um hvort möguleiki væri á að myndast hefðu loðnupokar í nótinni, sem hafi getað farið undir kjölinn og lokað fyrir innsog hliðarskrúfunnar. Skipstjórinn sagðist ekki geta gert sér grein fyrir hvort svo hefði verið. Fram kom að hliðarskrúfan hefði ekki misst afl áður. Einnig kom fram í máli skipstjórans að hann teldi að skipverjar hefðu ekki verið í hættu.

Í augnablik varð allt myrkvað

Leifur Kristján Þormóðsson 1. stýrimaður var staddur við kraftblökkina, miðskips, þar sem verið var að draga nótina. Hann varð var við að nótin lá aftur með skipinu og farið var að þyngjast í drætti. Þá tók hann eftir að dró niður í vél "og í augnablik varð allt myrkvað," sagði Leifur. Ljósin hafi komið á fljótt aftur og Árni kallað til sín að fara fram á, en þá hafi nótin þegar verið komin í skrúfuna. Leifur greindi frá því að skipverjar hefðu aðstoðað þegar Bjarni Ólafsson var að toga í Baldvin, en farið í var þegar átakið hófst, ef tógin skyldi slitna, svo sem kom á daginn. Skipverjar hefðu svo farið upp í brú og klæðst flotgöllum, en tveir hefðu farið í líflínu og farið fram á til að sleppa seinna akkeri. Eftir það hafi lítið annað verið hægt að gera en bíða og sagði hann menn hafa verið rólega og yfirvegaða þar til þyrla kom á staðinn. "Ég tel okkur hafa gert það sem við gátum og hægt var til að bjarga skipinu og reyna að koma í veg fyrir að það strandaði," sagði Leifur. Hann tók undir með skipstjóra og taldi menn ekki hafa verið í hættu.

Hliðarskrúfan afllaus í nokkrar sekúndur

Kristján Ingi Sveinsson yfirvélstjóri var í brúnni þegar atvik gerðust, en fór strax niður í vélarrúm. Áður hafði hann gefið 2. vélstjóra í vélarrúmi fyrirmæli um að setja ljósavél í gang. Þegar hann kom niður kúplaði hann ljósavél inn á kerfi skipsins þar sem aðalvélin hafði misst afl.

Fram kom í máli yfirvélstjóra að áður en áhöfnin yfirgaf skipið hafði verið drepið á öllum vélum nema ljósavél, hún var skilin eftir í gangi. Hann kvaðst ekki viss um hversu lengi hliðarskrúfan hefði verið afllaus, sennilega þó aðeins í örfáar sekúndur. Hann hafði enga skýringu á reiðum höndum um hvers vegna hún hefði misst afl og sagði að slíkt hefði ekki áður gerst.

Engir hnökrar í vélinni áður

Brynjar Sigurðsson 2. vélstjóri var í vélarrúmi, sat í vaktklefa og fór yfir varahlutalista í tölvu. Hann sagðist hafa orðið var við að dró niður í aðalvélinni, en ekki gert sér grein fyrir hvað var að gerast. Áður en það gerðist hafði hann samkvæmt fyrirmælum yfirvélstjóra ræst ljósavél. Hann var spurður hvort það væri regla að ræsa ljósavél og sagði hann það ekki starfsreglu en oft gert þegar verið er að draga nótina. Þegar yfirvélstjórinn kom í vélarrúmið setti hann ljósavélina inn á kerfið en skömmu áður hafði rafmagnið farið af stutta stund að sögn Brynjars. Hann sagðist ekki hafa orðið var við hnökra í gangi vélarinnar áður, ekkert óeðlilegt hefði komið fram og hann einskis orðið var.

Sjóprófum lauk í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær, dómstjóri er Ásgeir Pétur Ásgeirsson héraðsdómari en meðdómendur eru Gunnar Arason skipstjóri og yfirhafnarvörður og Sigurður Ringsted skipaverkfræðingur.