— Morgunblaðið/Sverrir
UM HUNDRAÐ manns sóttu opinn borgarafund um skipulagsmál Reykjavíkurborgar sem haldinn var í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í gær.

UM HUNDRAÐ manns sóttu opinn borgarafund um skipulagsmál Reykjavíkurborgar sem haldinn var í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í gær. Þar var fjallað um öll helstu skipulagsmál sem liggja fyrir borginni, þar á meðal skipulag Hafnarsvæðisins og Mýrargötusvæðisins, lagningu Sundabrautar, færslu Hringbrautar og fleiri smærri mál. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður skipulags- og bygginganefndar, fjallaði um málin, en Eiríkur Hjálmarsson, aðstoðarmaður borgarstjóra, stýrði fundi. Sagði Steinunn Valdís ólíkar hugmyndir um hentugri útfærslu Sundabrautar milli Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar, en Vegagerðin legðist gegn valkosti borgarinnar, ytri leiðinni, vegna þess að hann væri dýrari. Sagði hún borgina hallast að ytri leiðinni vegna þess að þar væri um að ræða umhverfisvænni valkost auk þess sem betri tenging myndaðist við miðbæinn. Þá sagði Steinunn hugmyndir um lögn Hringbrautar í stokk óraunhæfar og ekki mögulegar vegna kostnaðar.

Eftir framsögu Steinunnar Valdísar tóku til máls Elísabet Gísladóttir, formaður Íbúasamtaka Grafarvogs, Gísli Þór Sigurþórsson, formaður Íbúasamtaka Vesturbæjar, Páll Ásgeir Davíðsson, lögfræðingur í átakshópi Samtaka um betri byggð og Höfuðborgarsamtakanna, og Sigurður G. Steinþórsson, gullsmíðameistari og kaupmaður við Laugaveg. Fögnuðu allir framsögumenn áformum um þéttingu byggðar, sérstaklega í hugmyndum að nýju skipulagi Mýrargötusvæðisins, en þó var lýst eftir upprunalegum tilgangi Sundabrautar og þess óskað að að honum yrði aftur horfið, meðal annars með skjótari tengingu út á Kjalarnes.

Að loknum framsögum sátu fulltrúar borgaryfirvalda fyrir svörum og spurðu fundarmenn að mestu leyti almennra spurninga um skipulagsmál, framtíðarsýn og almannavarnir. Sagði þó einn fundarmanna samgönguyfirvöld ríkisins halda skipulagsyfirvöldum Reykjavíkurborgar í gíslingu, þar sem ríkið ætti stofnbrautir og héldi utan um allar fjárveitingar til vegaframkvæmda.