HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og dæmt liðlega fertugan karlmann í fimm og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni sem stóðu í tólf ár. Aðeins einu sinni áður hefur verið felldur jafnþungur dómur í máli af þessu tagi.
Þá hefur Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt hálffertugan karlmann í fimm ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn sex drengjum og brot á barnaverndarlögum. Ákæruvaldið setti fram kröfu um öryggisráðstafanir að lokinni afplánun en því hafnaði dómurinn.
Brotin hófust þegar stúlkan var 6 ára
Í fyrra málinu braut stjúpfaðirinn margítrekað gegn stúlkunni frá því að hún var sex ára gömul. Stúlkan lagði fram kæru í fyrra og í henni kom fram að stjúpfaðir hennar hefði misnotað hana frá því hún mundi eftir sér og þar til hún fór að heiman 18 ára gömul. Stjúpfaðirinn neitaði hins vegar allri sök. Í dómi Hæstaréttar er vísað til forsendna héraðsdóms en í þeim sagði að maðurinn hefði gerst sekur um sérlega grófa kynferðislega misnotkun gagnvart stúlkunni. Brotin hefðu djúpstæð áhrif á líf stúlkunnar og honum hefði mátt vera það ljóst.Sif Konráðsdóttir hæstaréttarlögmaður telur dóm Hæstaréttar ekki til marks um neina stefnubreytingu í dómum í kynferðisbrotamálum. Í hitt skiptið þar sem fimm og hálfs árs dómur hafi verið kveðinn upp hafi brotin staðið í fimm ár en í þessu máli sé brotatímabilið mun lengra og hugsanlega hafi því verið rök fyrir enn þyngri refsingu. "Þetta eru því ekki tíðindi um að verið sé að þyngja dóma í kynferðisbrotamálum," segir Sif.