Margir hlýddu á frásögn Erlu Halldórsdóttur af starfi sínu með alnæmissmituðum í Úganda.
Margir hlýddu á frásögn Erlu Halldórsdóttur af starfi sínu með alnæmissmituðum í Úganda. — Morgunblaðið/Golli
Alnæmisbörn er heiti nýs félags sem stofnað hefur verið, en tilgangur þess er að stuðla að bættum hag barna sem eiga undir högg að sækja vegna alnæmis. Á hverjum degi smitast sex þúsund ungmenni og tvö þúsund börn af alnæmi í heiminum.

Alnæmisbörn er heiti nýs félags sem stofnað hefur verið, en tilgangur þess er að stuðla að bættum hag barna sem eiga undir högg að sækja vegna alnæmis.

Á hverjum degi smitast sex þúsund ungmenni og tvö þúsund börn af alnæmi í heiminum. Talið er að um 14 milljónir barna undir 15 ára aldri í heiminum hafi misst annað eða bæði foreldri úr alnæmi. Fjögur af hverjum fimm þessara barna búa í Afríku sunnan Sahara, en líkur eru taldar á að árið 2010 verði 25 milljónir barna munaðarlaus vegna alnæmis.

Á stofnfundi félagsins, sem haldinn var í húsi Rauða kross Íslands, sagði Erla Halldórsdóttir frá alnæmisverkefninu "Candle Light Foundation" sem hún hefur unnið að í Úganda undanfarin tvö ár. Verkefnið miðar að því að styrkja stúlkur á aldrinum 15-20 ára til að þær geti lifað sjálfstæðu lífi og séð fyrir sér. Verkefnið nýtur m.a. styrk frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands og Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Stúlkurnar sem njóta góðs af verkefni Erlu eru munaðarlausar og margar smitaðar af HIV-veirunni en þær fá margskonar aðstoð í gegnum verkefnið. Þær fá launað starf við kertagerð auk þess sem þær eru studdar til náms. Um 20 stúlkur eru styrktar til sjálfshjálpar með þessum hætti á hverjum tíma. Erla segir að 37 stúlkur hafi notið góðs af verkefninu frá upphafi.

"Hugsunin er sú að þetta sé staður sem gerir þeim kleift að hjálpa sér sjálfar. Þær sem geta farið í nám fá aðstoð til þess. Sá stuðningur sem við erum að hugsa um héðan, og leitum eftir í gegnum félagið Alnæmisbörn, er t.d. að styrkja stúlkurnar til náms. Það kostar um tvö þúsund krónur á mánuði að hafa eina stúlku í námi," segir Erla.

Hún segir líklegt að um helmingur þeirra stúlkna, sem nú stunda nám eða starfa við kertagerð á vegum Candle Light Foundation, sé smitaður af alnæmi. Átta stúlkur af 21 eiga börn og segir Erla að líklega sé helmingur þeirra einnig smitaður af alnæmi. Ekki séu hins vegar til peningar til að útvega alnæmislyf, en hún segir það eitt af þeim verkefnum sem Alnæmisbörn muni beita sér fyrir að safna fé til.

Erla hefur farið tvisvar á ári til Úganda undanfarin ár og dvalið í hvert sinn í um einn og hálfan mánuð. Hún er mannfræðingur að mennt og starfar sem aðstoðarmaður við rannsóknir hjá Íslenskum orkurannsóknum.

Erla gerði rannsókn á högum barna í Úganda sem eru munaðarlaus vegna alnæmis árið 2001. Hún talaði við aðstandendur og við börnin sjálf, sem mörg hver voru á götunni. Hún komst í kynni við börnin í gegnum samtök sem gerðu sig út fyrir að aðstoða börnin. "Mér fannst þessi samtök ekkert gera í því að reyna að ná þeim af götunni," segir Erla en í kjölfar rannsóknarinnar kom hún Candle Light Foundation á koppinn.

Meðal hugmynda að verkefnum sem Erla kynnti á stofnfundinum er að setja upp ilmolíuframleiðslu. Blómaútflutningur sé mikill frá Úganda og hráefnið sé því á staðnum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir var kjörin formaður Alnæmisbarna, Erla Halldórsdóttir varaformaður og gjaldkeri og Helga Túliníus kjörin ritari. Þá voru þau María Jóna Gunnarsdóttir og Bjarni Reyr Kristjánsson einnig kjörin í stjórn Alnæmisbarna. Á þriðja tug stofnfélaga skráðu sig á fundinum, en á næstunni ætlar félagið að leita eftir frekari styrkjum frá fyrirtækjum, samtökum og einstaklingum til áframhaldandi baráttu fyrir bættum kjörum barna sem eru munaðarlaus vegna alnæmis.