Magnús Sigurjón Guðjónsson fæddist 1. október 1940 á Gaul í Staðarsveit. Hann lést á sjúkrahúsinu í Malmö í Svíþjóð 5. febrúar síðastliðinn. Foreldrar Sigurjóns voru Una Jóhannesdóttir, f. 17. nóvember 1878, d. 21. janúar 1996, og Guðjón Pétursson, f. 6. maí 1894, d. 7. ágúst 1968. Sigurjón var einn af 13 systkinum og var 9. þeirra 12 systkina sem náðu fullorðinsaldri en þau eru í aldursröð: Jón, Pétur Ingiberg, Jóhannes Matthías, Kjartan, Vilhjálmur Maríus, Sveinn, Gunnar, Ólína Anna, Guðmundur, Magnús Sigurjón, Soffía Hulda og Vilborg.

Af þessum hópi eru nú látnir fjórir bræður, þeir Pétur Ingiberg, Jóhannes Matthías, Vilhjálmur Maríus og Magnús Sigurjón.

Sigurjón kvæntist Önnu Bjarnadóttur 1965 og eignast með henni þrjú börn, Hrafnhildi, f. 1966, Kjartan, f. 1971 og Védísi, f. 1972. Þau skildu 1977 og í kjölfarið fluttist Sigurjón til Svíþjóðar.

Útför Sigurjóns var gerð í Malmö 12. febrúar. Minningarathöfn verður í Akraneskirkju í dag og hefst hún klukkan 14.

Elsku pabbi, tengdapabbi og afi.

Það fyrsta sem mér dettur í hug voru ferðirnar vestur þegar ég var yngri. Þú komst heim frá Svíþjóð og við fórum upp á Skaga að heimsækja fólkið og fá lánaðan bíl. Og það var Trabant af öllu!

Ég man hvað ég skammaðist mín fyrir bílinn, gelgjan sjálf. En þetta er ein af kærustu minningum mínum í dag, elsku pabbi minn, þegar ég lít til baka.

Strákarnir sakna þín mjög mikið. Alexander segir ekki margt að vanda en Sævar spyr um allt. Hvað gerist þegar maður deyr? Finnur maður til? En, nei, elsku kallinn minn, nú er allur sársauki á braut hjá þér og vonandi er allt betra núna. En við söknum þín samt sem áður og elskum þig. Takk fyrir allt elsku pabbi, tengdapabbi og afi, takk fyrir allt gamalt og gott í gegnum árin.

Kær kveðja,

Hrafnhildur, Ríkharður, Alexander Reynir og Sævar Sigurjón.

Elsku pabbi, tengdapabbi og afi.

Dagurinn sem við fréttum af veikindum þínum líður okkur seint úr minni. Samverustundir okkar flugu fyrir augum okkar og sorgin og söknuðurinn helltist yfir. Við áttum eftir að gera svo margt saman og á stundum sem þessum skilst manni hvað lífið er stutt. Anna Dóra sagði: "Mamma manstu þegar afi gaf mér og vinum mínum tyggjó í sumar"? Þetta er ein af hennar minningum um þig og takk elsku pabbi fyrir að gefa henni þessa minningu. Okkar minningar tengjast góðum og ánægjulegum samverustundum og sögunum þínum, en þér fannst gaman að segja frá og rifja upp gamla tíma. Þín er sárt saknað elsku pabbi, tengdapabbi og afi, takk fyrir minningarnar, þær ylja okkur á erfiðum tímum. Þú verður alltaf hjá okkur bæði í huga og hjarta. Þegar við hlustum á Vilhjálm Vilhjálmsson hugsum við um þig, hann tengir okkur saman þangað til við hittumst aftur. Líði þér vel elsku pabbi, tengdapabbi og afi, við söknum þín og elskum þig.

Kjartan, Anna, Anna

Halldóra og Anton Ingi.

Elsku pabbi.

Það er svo skrítið að hugsa til þess að þú ert ekki hér hjá okkur lengur. Skrítið að geta ekki kíkt til þín í Svíþjóð á leiðinni um heiminn eins og ég gerði svo oft. Skrítið að geta ekki hringt í þig og heyrt í þér hljóðið af og til. Þú talaðir ekki oft um tilfinningar þínar eða líðan, en við skildum hvort annað. Ég veit að þú áttir góðar stundir með okkur í sumar þegar þú komst til Íslands. Þær stundir eru mér dýrmætar í dag, því þessar stundir voru þær síðustu sem ég átti með þér í þessu lífi. Eins og alltaf varstu rólegur og yfirvegaður og sagðir ekki margt. Kvartaðir aldrei þó svo að tröppurnar upp í íbúðina mína væru þér næstum ofviða.

En þegar kom að því að dytta að einhverju sögðu verkin meira en mörg orð. Það var yndislegt að fylgjast með þér þegar þú varst að hjálpa okkur í íbúðinni í sumar. Verkfærin léku í höndunum á þér og smiðsaugað sveik ekki. Þú varst alltaf fljótur að sjá sniðugar útfærslur og hvernig væri best að gera hlutina. Takk fyrir alla hjálpina í sumar. Takk fyrir allt.

Loks er dagsins önn á enda,

úti birtan dvín.

Byrgðu fyrir blökkum skugga

björtu augun þín.

Ég skal þetta tár þíns trega,

tendra falinn eld,

svo við getum saman vinur

syrgt og glaðst í kveld.

Lífið hefur hendur kaldar,

hjartaljúfur minn.

Allir bera sorg í sefa,

sárin blæða inn.

Tárin falla heit í hlóði,

heimur ei þau sér.

Sofna vinur svefnljóð

meðan syng ég yfir þér.

Þreyttir hvílast, þögla nóttin

þaggar dagsins kvein.

Felur brátt í faðmi sínum

fagureygðan svein.

Eins og hljóður engill friðar

yfir jörðu fer.

Sof þú væran, vinur,

ég skal vaka yfir þér.

Góða ferð kallinn minn.

Védís og Magnús Þór.

Þegar konan mín sagði mér að mamma hennar hefði verið að segja sér að Sigurjón væri dáinn hrökk ég ósjálfrátt við því mér fannst svo stutt síðan við vorum að leika okkur í móunum við túnin í Glaumbæ og Neðri-Hól og mér fannst ég minntur óþyrmilega á að ég væri orðinn gamall því ég er fjórum árum eldri en Sigurjón og mér fannst alltaf að Sigurjón væri miklu yngri því hann var alltaf svo glaðlyndur og hress, tók öllu sem að höndum bar með bros á vör og sérstöku æðruleysi. En máltækið segir "enginn veit hver annan grefur".

Mig langaði að senda þér gamli leikfélagi og nágranni örfá fátækleg kveðjuorð að leiðarlokum.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.)

Ég bið ástvinum þínum Guðs blessunar og hinn eina sanna Guð bið ég að veita þér viðtöku, blessun og skjól.

Jónas Jónasson

(Mannsi frá Neðri-Hól).