Holger Peter Gíslason fæddist í Reykjavík 15. júní 1912. Hann lést í Holtsbúð í Garðabæ 16. mars síðastliðinn. Foreldrar Holgers voru Gísli Gíslason, f. 31.5. 1884, d. 29.5. 1963, og Ragnheiður Clausen, f. 24.8. 1879, d. 20.9. 1966. Hálfsystir Holgers, sammæðra, var Guðrún Olga Benediktsdóttir, f. 12.8. 1899, d. 28.12. 1982. Alsystir Holgers var Hólmfríður Gísladóttir, f. 22.4. 1911, d. 17.4. 1986.

Hinn 1. febrúar 1936 kvæntist Holger Guðrúnu Pálínu Sæmundsdóttur frá Vík í Mýrdal, f. 6. júlí 1913, d. 13. janúar 2003. Foreldrar hennar voru Oddný Runólfsdóttir og Sæmundur Bjarnason.

Synir Holgers og Guðrúnar eru: 1) Gísli, f. 25.6. 1936, kvæntur Idu Christiansen, f. 16.8 1939. Börn þeirra eru: a) Holger Gísli, f. 2.7. 1967, kvæntur Katrínu Halldórsdóttur, f. 11.5. 1967. b) Sigríður Dóra, f. 24.5. 1970, gift Páli Ólafssyni, f. 29.3. 1968. c) Erik Hermann, f. 22.7. 1975. 2) Sæmundur, f. 8.5. 1946, kvæntur Guðbjörgu Guðmundsdóttur, f. 6.5. 1953. Synir þeirra eru: a) Pétur Snær, f. 1.2. 1977, sambýliskona hans Magdalena Margrét Einarsdóttir, f. 10.8. 1976. b) Guðmundur Ágúst, f. 19.6. 1979. c) Holger Páll, f. 23.8. 1988. Langafabörnin eru níu.

Kveðjuathöfn um Holger verður í Vídalínskirkju í Garðabæ í dag og hefst hún klukkan 13.30.

Lokið er langri og oft viðburðaríkri lífsgöngu föður okkar. Fólk sem lifði nánast alla 20. öldina fékk að reyna margt og hafði frá mörgu að segja. Hann var góður sögumaður sem naut þess að segja frá. Holger fæddist í Vesturbænum og bjó unglingsárin á Vesturgötunni. Allt var nálægt sem skipti máli, félagarnir, fjaran, pabbinn sem vann í Verslun Geirs Zoëga og mamman var oft á basar Thorvaldsensfélagsins. Hann þakkaði það miklu lýsi að hann tók að braggast vel á unglingsárunum og mestalla ævi var hann hreystimenni og léttur á sér þó að hann væri ávallt þéttvaxinn.

Alla ævi naut hann ferðalaga og gekk ungur mikið á fjöll og oft um langa vegu fótgangandi og á skíðum. Ratvísi hans var sérstök hvort sem hann var staddur í borgum erlendis eða óbyggðum Íslands. Hann mundi ógrynni af örnefnum og ratvísin entist honum alla ævi þó að sjónin væri orðin mjög léleg síðustu árin. Hann vissi ávallt hvar hann var og gat sagt til hvar ætti að fara.

Sautján ára hóf hann nám í rafvirkjun hjá Júlíusi Björnssyni. Þar var verkstjóri Johan Rönning sem réð hann síðar með sér þegar hann stofnaði fyrirtæki sitt. Líkaði honum vel að starfa þar. Í skíðaferð kallaði Rönning hann afsíðis og spurði hvort hann vildi fara fyrir sig til Djúpuvíkur því þar ætti að reisa síldarverksmiðju. Hvorugur vissi þá hvar Djúpavík var en samt varð pabbi að svara strax. Það hafði Rönning þurft að gera þegar hann var beðinn að fara til Íslands og nú vildi hann líka fá svar strax. Þá var ákveðið að halda til Djúpuvíkur.

Á Djúpuvík varð nokkur bið eftir að raflagnaefni kæmi á staðinn og því var ákveðið að skreppa á skíðum yfir í Ísafjarðardjúp. Bátur flutti skíðafélagana svo um Djúpið til Ísafjarðar þar sem hann tróð upp og söng fyrir gesti skíðavikunnar sem þar var þá haldin. Þegar skíðakapparnir komu aftur til Djúpuvíkur var skipið með efnið einmitt að sigla inn fjörðinn. Verkið við síldarverksmiðjuna gekk mjög vel svo ekki virðist ferðaþreytan hafa setið í mönnum. Þannig hafði hann frá mörgu að segja og naut þess að hafa orðið. Það var ákaflega fróðleg ferð að klöngrast veginn með honum til Djúpuvíkur mörgum árum síðar og fá sögurnar beint í æð af miklum dugnaðarköppum og atburðum sem þar urðu. Nokkru síðar lá leið hans til Hjalteyrar þar sem síldarverksmiðjan varð hans fyrsta sjálfstæða verk í rafmagni. Framhaldið varð rafverktakafyrirtækið Rafall hf. í Tryggvagötunni sem hann rak í mörg ár með öðrum uns hann flutti 1957 ásamt fjölskyldunni til Kaliforníu.

Dvölin í Bandaríkjunum átti að verða eitt ár en varð tvö. Þar nýttist vel að hann var ákaflega fjölhæfur til verka því ekki var hægt að stunda þar rafvirkjun án þarlendra réttinda. Dvölin í Bandaríkjunum fólst í miklum ferðalögum í frítímum og á leiðinni heiman og heim var ekið um þver og endilöng Bandaríkin og aðeins kíkt inn í Mexíkó og Kanada. Það var mikill skóli og góður ekki síst fyrir synina.

Eftir heimkomuna lá leiðin fyrst á Keflavíkurflugvöll í vinnu fyrir herinn og síðar sem rafmagnseftirlitsmaður hjá rafveitum Suðurnesja. Auk þessa vann hann á efri árum meðan sjónin entist í vaxandi mæli við rafhönnun og teikningar. Árið 1964 reisti fjölskyldan sér hús í Garðahreppi og í Garðabæ bjó hann síðan til æviloka.

Þegar á unglingsárunum fór hann að vekja athygli fyrir óvenjulega sönghæfileika. Hann lærði nokkuð til söngs hjá ýmsum kennurum en eins og hann sagði sjálfur þá glefsaði hann aðeins í námið öðru hverju. Erfitt reyndist að koma námi við því hann varð snemma mjög eftirsóttur til vinnu og viljugur að vinna. Hann stundaði þó söng með Karlakór KFUM, Kátum félögum og Fóstbræðrum. Hann tók þátt í flutningi Rigoletto, fyrstu óperusýningu á Íslandi, með Þjóðleikhúskórnum og nokkrum öðrum óperum sem fylgdu í kjölfarið. Þá fór hann söngferðir til útlanda með Fóstbræðrum. Hann naut söngsins mjög og átti til að taka vel undir með stóru tenórunum þegar þeir heyrðust í útvarpinu. Þá hafa minningarnar eflaust rifjast upp er honum stóð til boða að verða kostaður til alvörusöngnáms. En hann ákvað þá að ekki vildi hann verða fátækur listamaður alla ævi þó að hann langaði rosalega að grípa tækifærið. Kominn um nírætt spurði hann dreyminn á svip sitjandi í stólnum sínum. ,,Getur þú ímyndað þér hvernig tilfinning er að syngja háa c?" Þessu fylgdi þögn.

Hann var hagleiksmaður sem bjó yfir frjálsri hugsun til að finna sínar eigin leiðir ef þess var þörf. Hann var flinkur teiknari og málaði nokkur ágæt málverk um ævina. Listamannsferillinn kom eiginlega í tveim bylgjum, sú fyrri endaði þegar eldri sonurinn fékk nokkurn þroska og ómótstæðilegan áhuga á litunum og vildi gera líka og sú síðari tíu árum síðar er sá yngri fann hjá sér sömu hvöt. Vonandi er betra seint en aldrei að afsaka uppátækið. Pabbi hafði margt á hreinu í lífinu. KR-ingar eru bestir og menn eiga ekki að vera pólitískir, þeir eiga bara að vera sjálfstæðismenn. Svo var það Gunna konan hans hún var bæði besta og fallegasta kona í heimi og það verðum við bræðurnir eiginlega að taka undir. Þau voru samrýnd hjón sem bættu hvort annað upp þó þau hefðu stundum nokkuð ákafan samskiptamáta. Enginn efaðist þó um að þau voru ávallt miklir vinir. Þau fengu að vera saman þar til mamma lést snemma á síðasta ári. Eftir það átti pabbi nokkuð erfitt og leið ekki alltaf vel.

Pabbi reyndi alltaf að fylgjast vel með sínu fólki og sér í lagi ef hann vissi að einhverjar framkvæmdir voru í gangi. Þá hafði hann mikinn vilja til að aðstoða eða sendast eftir einhverju sem vantaði. Viðbragðsflýtirinn var með ólíkindum hvort sem hann þurfti að fara að nóttu eða degi. Fyrir þennan eiginleika var hann stundum góðlátlega nefndur ,,sendiherrann".

Nú við leiðarlok þessa lífs viljum við þakka fyrrum nágrannakonu pabba og mömmu Kristínu Egilsdóttur fyrir einstaka ræktarsemi alla tíð sem var okkur öllum mikils virði. Þá viljum við þakka góðu fólki sem starfar í Holtsbúð. Þar eru ýmsir englar á ferð, sérstaklega þegar á reynir. Mikið geta störf ykkar verið þýðingarmikil og göfug. Pabbi hafði skýra hugsun allt til enda. Hann veiktist að lokum af lungnabólgu. Þegar bráði nokkuð af honum sagði hann okkur einbeittur að mamma hefði komið að rúminu til hans, haldið í höndina á honum og talaði lengi við hann. Hann varð ákaflega rólegur síðustu dagana og hafði greinilega fengið nóg af þessari jarðvist. Baráttunni var lokið, andinn frjáls og nú munu þau hvíla saman í Vík í Mýrdal þar sem útsýni er hvað fegurst.

Gísli og Sæmundur.

Við eigum margar góðar minningar um afa okkar, við litum upp til hans enda var hann mjög virðulegur maður. Honum var margt til lista lagt og hafði áhuga á mjög mörgu. Hann kunni vel að segja sögur og hafði ýmislegt um að tala. Hann vildi oft segja okkur fróðleikmola sem ekki endilega er lesinn af bók en er leiðbeinandi og gott veganesti fyrir unga menn.

Hann var kappsmaður mikill og sló aldrei af, jafnvel í seinni tíð er hann studdist við göngugrindina, sem hann kallaði vörubílinn, þá átti hann það til að skora á mann og annan í kapp og reyna hvað hann kæmist hratt, kanna hvers megnugur hann væri enn. Það átti reyndar jafnt við um líkamlegan þrótt sem og heilabrot og minnisatriði því hann var stálminnugur og alltaf til í að reyna sig þar líka, gera smá tékk, sem hann stóðst öll, alltaf.

Nú þegar hann hefur fetað í fótspor ömmu upp himnastigann sem hana dreymdi unga er ekki hægt annað en að minnast þess hversu frábær þau voru saman. Það var mikill kraftur og velvilji sem einkenndi þau.

Meðan þeim entist heilsa voru þau alltaf á ferðinni ýmist á leið til Víkur eða til okkar á Hvolsvöll eða bara að keyra hringinn um landið sem þótti passlegt að fara á svona þremur dögum.

Við fengum gjarnan að fara lengri eða skemmri leiðir með þeim og stundum kom það fyrir að menn voru gripnir fyrirvaralaust úr sveitinni.

Ef ferðast var í bílalest átti afi til að spyrja lævíslega hvort ekki væri allt í lagi að bæta eins og "fimm" við því hann vildi ekki drolla við aksturinn.

Við viljum að endingu þakka fyrir allar góðu stundirnar.

Pétur Snær,

Guðmundur Ágúst

og Holger Páll.