Margt ég vildi þakka þér

og þess er gott að minnast

að þú ert ein af þeim sem mér

þótti gott að kynnast.

(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Hún var ætíð til staðar með sínar góðu ráðleggingar og elskulegheit, frá okkar fyrstu kynnum. Fyrir það viljum við þakka elsku vinkonu okkar, henni Sveinu.

Drottinn blessi hana og minningu hennar.

Við vottum fjölskyldu hennar og öllum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Rakel og Jón.

Sveina var há og glæsileg kona og bauð af sér góðan þokka. Hún var brosmild og hlý og átti auðvelt með að gefa af sér. Það geislaði af henni umhyggja fyrir náunganum. Hún var með hljómmikla og hláturmilda rödd og brosi á vör fylgdi glettnislegt blik í auga. Þannig mun hún lifa í minningunni.

Til Sveinu var gott að sækja ráð um allt varðandi börn og ætíð vildi hún fræðast um hagi allrar fjölskyldunnar.

Fjölskyldu Sveinu sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Pétur Reimarsson.

Þakka þér, Sveina mín, fyrir 50 ára vinskap.

Það var notalegt að eiga þig fyrir vin, ávallt káta og hlæjandi.

Innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu þinnar.

Kristinn á Löndum.