Jóhann Bergþórsson
Jóhann Bergþórsson
Hvers eiga hinir verktakarnir sem gerðu tilboð í verkin að gjalda? Af hverju voru tilboð þeirra ekki viðunandi?

Á ÁRSFUNDI Landsvirkjunar hinn 2. apríl sl. gaf stjórnarformaður fyrirtækisins, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, ýmsar yfirlýsingar vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Nokkur umfjöllun hefur verið um þær í fjölmiðlum síðan og þá einkum frá náttúruverndarsinnum og fulltrúa Rafiðnaðarsambandsins.

Ekki er ástæða til að fjalla frekar um þau atriði hér en undirritaður getur ekki orða bundist vegna nokkurra atriða sem fram komu í ræðunni og vill hér með vekja athygli á þeim ótrúlega tvískinnungi sem felst í umfjölluninni.

Fyrst skal fjallað um feril tilboðsgerðar í Kárahnjúka.

Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Landsvirkjunar voru 4 samsteypur forvaldar af Landsvirkjun til tilboðsgerðar í Kárahnjúka.

Þær voru:

1.Impregilo frá Ítalíu.

2.Balfour Beatty frá Englandi.

3.Hochtief Þýskalandi, NCC frá Svíþjóð og ÍAV frá Íslandi.

4.Skanska Svíþjóð, E. Phil & Sön as, Danmark, Vejdekke, Noregi og Ístak, Íslandi.

Þessar samsteypur allar, með breytingum þó, gáfu tilboð í byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

1.Impregilo eitt og sér en fékk einhverjar upplýsingar frá Keflavíkurverktökum sem ekkert hafa unnið að virkjunarframkvæmdum.

2.Balfour Beatty, bæði í samstarfi við Arnarfell hf. sem unnið hefur við Sultartangavirkjun og Vatnsfellsvirkjun og Ístak og E. Phil & Sön sem unnið hafa við fjölda virkjana hérlendis.

3.Hochtief og Íslenskir aðalverktakar (sem voru að ljúka byggingu Vatnsfellsvirkjunar). NCC hætti við tilboðsgerðina á síðustu stundu en hafði unnið að henni fram á síðasta dag en brotthvarf þeirra hafði ekki áhrif á tilboðsupphæð.

4.E.Phil & Sön, Ístak og AF Gruppen ASA í Noregi , en AF Gruppen ASA kom í stað Skanska og Vejdekke. AF Gruppen er mjög öflugt verktakafyrirtæki með mikla reynslu við byggingu virkjana.

Forstjóri Landsvirkjunar lýsti hneykslun yfir m.a. framferði NCC að hætta við þátttöku í tilboðsgerðinni. Fannst mér það skondið þar sem Landsvirkjun sjálf hafði í sept. 1991 skrifað undir samning við NCC og Hagvirki um Fljótsdalsvirkjun en hætti við í október sama ár. Þá höfðu fyrirtækin eytt tæpum 80 milljónum í tilboðsgerðina án þess að fá nokkuð fyrir. Viðhorfin eru þannig breytileg eftir því hver á í hlut.

Aftur að Kárahnjúkum.

Landsvirkjun fékk þannig tilboð frá öllum hópunum, en aðeins þrjú tilboð í hvorn verkhluta þar sem Ístak og Phil & Sön var með tveim aðilum, sínum í hvorn verkhlutann.

Þannig er sammerkt með öllum bjóðendum að Impregilo undanskildum að þeir hafa reynslu af verkframkvæmdum fyrir Landsvirkjun við virkjanir á Íslandi og þekkja virkjanasamninginn og skilyrði til atvinnureksturs á fjöllum hérlendis.

Ég veit að þessir bjóðendur með íslenska reynslu lögðu áherslu á að í einu og öllu yrði fylgt forsendum Landsvirkjunar um að virða íslenska kjarasamninga og reglur um aðbúnað og öryggi starfsmanna.

Þeir lögðu sig einnig allir fram um að reyna að vera lægstbjóðendur og fá verkið og eyddu tugum milljóna í tilboðsgerðina.

Það er því með öllu óviðeigandi og óskiljanlegt að stjórnarformaðurinn leyfi sér að fullyrða "Það voru því öðru fremur hópur hörðustu virkjunarandstæðinga á Íslandi sem með óprúttnum áróðri á erlendri grundu urðu þess valdandi að einungis barst viðunandi tilboð frá einu fyrirtæki í verkið."

Einnig að "Gerðin var jú að verulegu leyti þeirra hvað það snertir að við fengum ekki tilboð frá fyrirtækjum sem að þeirra mati væru samboðin íslenskum aðstæðum."

Hvers eiga hinir verktakarnir sem gerðu tilboð í verkin að gjalda? Af hverju voru tilboð þeirra ekki viðunandi? Allir hóparnir gerðu jú tilboð þó þeir væru breyttir. Íslensku aðilarnir voru þeir sömu.

Síðar í ræðunni segir stjórnarformaðurinn: "Hvað þetta snertir er alveg ljóst að samkvæmt samningum Landsvirkjunar við þá (Impregilo) eru skýr ákvæði um að farið skuli í öllu að íslenskum lögum og reglum hvað snertir framkvæmdina."

Hann getur ekki um það að Impregilo upplýsti á fundi hjá SA hve marga mannmánuði þeir hygðust nota við verkefnin og hversu stór hluti mannakostnaður væri af tilboðsupphæðinni. Af þeim upplýsingum er ljóst að áætlaður launa- og mannahaldskostnaður þeirra var aðeins um 1/3 af raunkostnaði við mannahald við síðustu virkjun.

Mismunur tilboðanna skýrist auðveldlega af þeirri ástæðu.

Augljóst var þannig að ekki var ráðgert að virða Virkjanasamninginn eða að fara að settum reglum við aðbúnað.

Það er það sem stjórnarformaðurinn kallar "viðunandi tilboð", ekki tilboðin með þátttöku íslensku aðilanna þar sem gengið var út frá að virða íslensk lög og reglur.

Hins vegar má spyrja hvort ráðist hefði verið í virkjunina ef eðlilegt verðlag vinnuafls og virðing fyrir íslenskum lögum og reglum hefði ráðið.

Eftir að Impregilo hefur kynnst launakostnaði hérlendis hafa þeir ekki orðið lægri í tilboðum fyrir Landsvirkjun en þeir aðilar sem ekki buðu "viðunandi" í aðalverkin við Kárahnjúka.

Launamenn kvarta yfir aðbúnaði, starfsmannaleigur greiða ekki laun samkvæmt samningum, sveitarfélög kvarta yfir að skattar skili sér ekki. Þeir upplýsa jafnframt að samsteypan sem ÍAV og Ístak eru í og er að byggja stöðvarhúsið skili öllum gjöldum, greiði rétt laun og aðbúnaður sé í lagi.

Hver verður hlutur ríkissjóðs og sveitarfélaga sem að jafnaði hefur haft drjúgar tekjur af launum starfsmanna á fjöllum?

Fjöldi Íslendinga er á atvinnuleysisbótum á meðan hundruð erlendra láglaunamanna eru að störfum við Kárahnjúka.

Hver verður nettó raunkostnaður Íslendinga þegar upp verður staðið?

Að lokum mótmæli ég því sem fyrrum staðarstjóri fyrir ÍAV við byggingu Vatnsfellsvirkjunar að aðstaða til slysavarna, frístundaiðkana hafi verið þannig að aðstaða Impregilo "verði" slík að "kallast skuli á öðru og hærra plani en þekkst hafi við framkvæmdir á fjöllum áður," enda þótt rætt sé um skóla og búsetu á svæðinu m.a. til að spara ferðapeninga sem ráðast af búsetu. Í Vatnsfelli var sjúkrastofa, sjúkrabíll, þyrlupallur, slökkvibíll ásamt reyndu björgunarliði, fjöldi setustofa, gufubað, líkamsræktarstofur, leikjastofur ásamt tölvu og internet-sal. Starfsmenn hrósuðu aðstöðunni og kvörtuðu ekki. Drykkja á bar var hins vegar ekki leyfð.

Jóhann Bergþórsson skrifar um framkvæmdir á hálendinu

Höfundur er verkfræðingur.