20. desember 1991 | Innlendar fréttir | 432 orð

Ísland fyrsta vestræna ríkið sem viðurkennir Slóveníu og Króatíu: Ljóst að EB

Ísland fyrsta vestræna ríkið sem viðurkennir Slóveníu og Króatíu: Ljóst að EB hefur mistekist að stöðva stríðsaðgerðir Serba ­ segir Jón Baldvin Hannibalsson og telur brýnt að Sameinuðu þjóðirnar taki sem fyrst að sér friðargæslu RÍKISSTJÓRN Íslands sendi...

Ísland fyrsta vestræna ríkið sem viðurkennir Slóveníu og Króatíu: Ljóst að EB hefur mistekist að stöðva stríðsaðgerðir Serba ­ segir Jón Baldvin Hannibalsson og telur brýnt að Sameinuðu þjóðirnar taki sem fyrst að sér friðargæslu RÍKISSTJÓRN Íslands sendi í gær stjórnum Slóveníu og Króatíu skeyti þar sem sagt var að ákveðið hefði verið að viðurkenna þau sem sjálfstæð og fullvalda ríki. Í yfirlýsingu Jóns Baldvins Hanni-balssonar utanríkisráðherra segir jafnframt að íslensk stjórnvöld séu reiðubúin að taka upp stjórnmálasamband við ríkin og verði tilhögun þeirra mála ákveðin á næstu dögum. Ísland varð með þessu fyrsta vestræna ríkið sem viðurkennir sjálfstæði ríkjanna tveggja en áður höfðu Litháen og Úkraína riðið á vaðið.

Evrópubandalagið (EB) hefur samþykkt að viðurkenna sjálfstæði þeirra júgóslavnesku lýðvelda sem þess óska 15. janúar ef þau uppfylli skilyrði um að halda í heiðri lýðræði, tryggja réttindi minnihlutahópa og breyta ekki landamærum.

Jón Baldvin Hannibalsson sagði að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun í málinu sl. sunnudag. Ekki skipti máli þótt EB biði fram í janúar, bandalagið hefði annarra hagsmuna að gæta en við þar sem það stæði fyrir friðarráðstefnu um málefni Júgóslavíu í Haag. Klofningur væri í bandalaginu í þessu máli, vitað væri að Þjóðverjar vildu flýta viðurkenningunni. Utanríkisráðherra var spurður hver hann teldi að yrðu viðbrögð Serba. "Við höfum auðvitað velt því mikið fyrir okkur því að ástæðan fyrir þeim drætti sem orðið hefur er fyrst og fremst sú að menn hafa viljað vita með meiri vissu hvort einhver von væri til þess að Evrópubandalagið gæti með friðarráðstefnunni knúið Serba til að láta af styrjaldaraðgerðum. Nú hafa allir gefið upp von um það. Viðurkenningin byggir á því að Slóvenía og Króatía hafa með formlegum hætti fullnægt þeim skilmálum sem menn voru almennt sammála um að setja og ríkin tvö hafa tekið af tvímæli um það að þau eru reiðubúin að virða réttindi minnihlutahópa. Það hafa þau gert með sérstakri löggjöf sem við metum gilda.

Nú skiptir mestu að þau ríki, sem hafa markað sér þessa stefnu, haldi sínu samstarfi áfram og þá ekki síst innan Sameinuðu þjóðanna, hins alþjóðlega samfélags, til að stöðva þessi vopnaviðskipti, koma á raunverulegum friði og tryggja hann með nærveru friðargæslusveita." Jón Baldvin sagði það nú fullreynt að Júgóslavía væri úr sögunni og færu önnur lýðveldi gamla sambandsríkisins fram á viðurkenningu yrði það metið hvort þau fullnægðu þeim skilmálum sem settir væru.

Eyjólfur Konráð Jónsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði að þar hefði verið samstaða á mánudag um að sjálfstæði ríkjanna tveggja yrði viðurkennt þegar ríkisstjórnin teldi það tímabært en þó ekki síðar en önnur ríki hefðu ákveðið. Full samstaða væri um málið í nefndinni.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.