Högni Högnason, síðar vitavörður, var einn af skipshöfn Hugins í Spánarferðinni. Hann er hér í hópi sjómanna, sem heiðraðir voru fyrir þátttöku í baráttu sjómanna. Högni er lengst til hægri.
Högni Högnason, síðar vitavörður, var einn af skipshöfn Hugins í Spánarferðinni. Hann er hér í hópi sjómanna, sem heiðraðir voru fyrir þátttöku í baráttu sjómanna. Högni er lengst til hægri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjómannadeginum er fagnað víða um land í dag og hafa margir sjómenn sett sinn svip á söguna. Pétur Pétursson rifjar hér upp saltfisksiglingar og þætti úr sögu nokkurra sjómanna.

Löndin á Pýreneaskaga hafa jafnan hleypt ólgu í blóð Íslendinga og tengjast þau minningum og þjóðmálaumræðum með ýmsum hætti.

Spánska veikin, ein eftirminnilegasta og mannskæðasta farsótt sem hér geisaði, í lok fyrri heimsstyrjaldar. Saltfisksala íslenskra útvegsmanna. Fullhugar í þeirra flokki sendu seglskip með "Bacalao" frá Bíldudal og ýmsum öðrum höfnum beint til Spánar. Spænsku vínin, sem flutt voru inn og rufu skarð í vínbannsmúra fátækrar þjóðar og ruddu braut drykkjuskapar. Spánverjar kröfðust þess að Íslendingar keyptu af þeim vín svo jafna mætti verslunarviðskipti með þeim hætti vegna saltfiskkaupa þeirra. Hversvegna datt engum í hug að þurrka hornasir íslenskra barna, sem gengu með græna vilsu í nösum þegar kom fram á útmánuði? Grænmetisverslun ríkisins skammtaði stjúpmóðurlega fáeina ávexti, með eftirgangsmunum. Það voru helst framsóknarmenn og stöku alþýðuflokksmaður, sem sáust hlaupa með rúsínukassa úr sölustofnun grænmetis við Sölvhólsgötu.

Sjónvarpið sýndi í fyrra þátt frá Bíldudal. Þar var ekki minnst einu orði á Pétur Thorsteinsson, Bíldudalskónginn, sem sendi Bacalao-skip sín seglum þöndum til Bilbao og ýmissa hafna á suðrænum sólarströndum. Sjónvarpið ræddi við dægurlagasöngvara um kjól Hallbjargar Bjarnadóttur á minjasafni og var það góðra gjalda vert, en sniðgekk bæði Pétur Thorsteinsson og Þorstein Erlingsson, hvað þá að minnst væri á sólarlagið og "sædjúpin köld", sem blikuðu í ljóði Þorsteins um Arnarfjörð.

Hrafnar Óðins

Huginn og Muninn hétu hrafnar Óðins. Þeir færðu honum fregnir. Thor Jensen, sem best verður lýst með því að þegar allir aðrir hugsuðu í hundruðum, þá voru öll hans hundruð a.m.k. stórt hundrað. Stórt hundrað var 120.

Thor hlaut að nefna skip sín eftir hröfnum Óðins. Hann sagði Valtý Stefánssyni frá skipakaupum sínum í samtali, er Valtýr skráði.

Eins og vænta mátti kemur Valtýr víða við í frásögn þeirri er hann skráir eftir frásögn Thors. Elsti bróðir Thors Jensens, Alfred Raavad, kom í kynnisferð til Íslands. Þeir bræður urðu samferða til Ameríku, en þar átti Alfred uppkomna syni.

"Við bræður urðum nú samferða til Bandaríkjanna og heimsóttum syni Alfreds, en tíminn til skemmtiferða var takmarkaður, því að ég hafði mörgu að sinna. Fyrst og fremst þurfti ég að komast til New Orleans vegna skipakaupanna. Ólafur Davíðsson útgerðarmaður í Hafnarfirði hafði nokkru áður fest þar kaup á flutningaskipinu "Francis Hyde", sem síðar var selt Ólafi Johnson stórkaupmanni o.fl. Ekki féllu mér þó þau skip, sem þar voru á boðstólum. Kol voru dýr um þetta leyti og oft ekki fáanleg. Varð það því úr, að ég festi kaup á tveimur seglskipum, skonnortum, er síðar fengu nöfnin "Huginn" og "Muninn". Fann ég þær í Boston. "Muninn" hét áður "George B. Cluett", 300 smálestir að stærð. Hafði áður verið notaður til rannsóknaferða í Norðurhöfum, framúrskarandi traustbyggt skip með 80 hestafla hjálparvél. "Huginn" var hinsvegar nýtt skip, 400 smálestir að stærð. Bæði skipin komu til Íslands í ársbyrjun 1917 með matvörur á vegum ríkisstjórnarinnar. Næstu árin notaði Kveldúlfur þessi skip til fiskflutninga og farnaðist þeim vel."

Thor rekur áhugaverða sögu saltfiskverkunar og nefnir ýmsar verkunaraðferðir. Þeim Kveldúlfsmönnum tókst að efla svo saltfisksölu til Spánar að fiskmerki þeirra "K" naut sérstakrar virðingar og trausts.

Thor segir svo frá starfslokum sínum í Kveldúlfi:

"Um það leyti sem ég hætti störfum í Kveldúlfi var fyrirtækið orðið mjög stórt eftir íslenzkum mælikvarða, þótt það ætti enn fyrir sér að vaxa. Upp úr styrjaldarlokum áttum við 11 skip, togarana "Egil Skallagrímsson", "Skallagrím", "Snorra goða" og "Snorra Sturluson", fimm vélbáta allstóra, "Gissura hvíta", "Geir goða", "Þóri", "Högna" og "Ölvi". Þá voru flutningaskipin "Huginn" og "Muninn".

Kveldúlfur var um tíma áreiðanlega stærsta fiskútflutningsfirma í heimi, af þeim sem ráku verzlun fyrir eigin reikning."

Ólafur Ingvar Guðmundsson

Torvelt reynist að fá traustar og haldgóðar upplýsingar um áhafnir seglskipanna sem hér koma við sögu, "mótorskonnortur" eru skipin kölluð. Í siglingu þeirri sem hér er nefnd er ekki ljóst hvort Ólafur Ingvar Guðmundsson er skipstjóri eða stýrimaður. Í sumum heimildum er Sigurður Jónsson skráður skipstjóri. Skipshafnaskrár eru misvísandi og ber ekki saman. Úr því má þó bæta síðar með upplýsingum ættmenna.

- - - - -

Ólafur Ingvar Guðmundsson var einn af mörgum vöskum Vesturbæingum, sem stunduðu sjóinn og lögðu í langför, og leitaði fjarlægra voga. Hann vann húsbændum sínum af trúmennsku. Bjó með Guðrúnu konu sinni og mannvænlegum börnum á Framnesvegi í reisulegu steinhúsi þar. Ljósmynd sú sem hér birtist af skipshöfn Hugins er fengin að láni hjá Fjólu, dóttur Ólafs, en hún er tengdadóttir Péturs Halldórssonar borgarstjóra Hún er ekkja Björns bóksala Péturssonar.

Huginn flutti saltfarm frá Spáni til Reykjavíkur.

Mér er ekki kunnugt hvort Ólafur hefir haft með sér appelsínur frá Spáni þegar hann kom heim eftir langa útivist. Víst væri það fróðlegt rannsóknarefni fyrir unga fræðimenn að hyggja að því hvort þess hefði verið nokkur kostur að semja um ávaxtainnflutning í skiptum fyrir saltfiskinn, sem Íslendingar seldu fyrir "sherryræfil" eins og Thorolf Smith hefði sagt.

Þau urðu örlög Ólafs að hann hlaut vota gröf. Drukknaði er hann var að starfi í þjónustu vinnuveitanda síns, Kveldúlfs.

Meðal skipsfélaga Ólafs Ingvars í Spánarferðinni voru meðal annarra Ragnar Guðlaugsson bryti. Hann var mágur Vilhjálms frá Skáholti og Sigurðar blómasala, afi Ástu Ragnheiðar alþingiskonu. Ragnar var um skeið bryti á Gullfossi. Hann rak einnig Hressingarskálann við Austurstræti. Var fulltrúi í nefndum veitingamanna.

Högni Högnason háseti, síðar vitavörður um langt skeið. Synir hans voru Anton, Kristján og Högni, allir leigubílstjórar í Reykjavík. Högni var sókndjarfur baráttumaður í flokki sjómanna. Guðmundur Hallvarðsson, forvígismaður sjómanna, heiðraði Högna og félaga hans fyrir vasklega framgöngu í Blöndahls-slagnum svonefnda.

Heill sjómönnum á sjómannadegi. Minnumst einnig framtaksmanna.

Höfundur er þulur.