Strútar hafa ekki fitu í fjöðrum sínum og stjórnvöld telja þá ekki geta þrifist í íslensku roki og rigningu. Strútfuglar eru eftirsóttir til matar. Kjötið er fitusnautt og margir telja það heilsufæði. Strúturinn er stærsti núlifandi fugl í heimi og getur o
Strútar hafa ekki fitu í fjöðrum sínum og stjórnvöld telja þá ekki geta þrifist í íslensku roki og rigningu. Strútfuglar eru eftirsóttir til matar. Kjötið er fitusnautt og margir telja það heilsufæði. Strúturinn er stærsti núlifandi fugl í heimi og getur o — Morgunblaðið/Ásdís
GUÐNI Ágústsson landbúnaðarráðherra hefur hafnað umsóknum um innflutning á nokkrum tegundum dýra sem ekki hafa stigið fæti á íslenska grund, svo vitað sé.
GUÐNI Ágústsson landbúnaðarráðherra hefur hafnað umsóknum um innflutning á nokkrum tegundum dýra sem ekki hafa stigið fæti á íslenska grund, svo vitað sé. Um er að ræða lamadýr, strúta, íkorna, nagdýr og merði, auk þess sem hafnað var beiðni um að fá að flytja inn sæði frá Bandaríkjunum úr afrískum villiketti til að sæða íslenska húsketti.

Guðni segist í samtali við Morgunblaðið hafa hafnað umsóknunum af nokkrum ástæðum. Fyrir það fyrsta hafi neikvæðar umsagnir legið fyrir frá embætti yfirdýralæknis, dýrasjúkdómanefnd, sérfræðinefnd um framandi lífverur og fleiri eftirlitsaðilum. Hann hafi heldur ekki getað, samvisku sinnar vegna, heimilað innflutninginn með dýravernd að leiðarljósi og vernd fyrir dýrasjúkdómum. Hætta sé á að dýr eins og lamadýr og strútar geti borið hingað sjúkdóma.

"Við verðum að fara mjög varlega í þessum efnum. Mestu áföll í íslenskum landbúnaði á síðustu öld voru dýrasjúkdómar sem bárust til landsins. Það var því mín sannfæring að neita þessum umsóknum," segir Guðni Ágústsson.

Lamadýrin átti að nota til trússferða um landið

Islama - Íslenska lamadýrafélagið sendi inn umsókn fyrir rúmu ári um að fá að flytja inn til landsins lifandi lamadýr, Lama glama, frá Kanada en dýrin eiga uppruna sinn að rekja til Andesfjalla í S-Ameríku. Hugðist félagið nota dýrin til svonefndra trússferða vítt og breitt um landið.

Umhverfisstofnun mælir ekki gegn innflutningi á lamadýrum, telur þau ekki geta haft skaðleg áhrif á náttúruna en reka megi vistvæna ferðamennsku án þeirra. Aðrir umsagnaraðilar hafna þeim alfarið, m.a. vegna hættu á að þau geti sem klauf- og jórturdýr borið með sér dýrasjúkdóma. Bendir yfirdýralæknir í umsögn sinni á að nýlega hafi komið upp kúrariða í nautgrip í Kanada og þar í landi sé landlægur smitandi heilahrörnunarsjúkdómur í hjartardýrum, sem sé í flokki riðusjúkdóma.

Strútarnir þola ekki rok og rigningu

Landbúnaðarráðuneytinu barst í september sl. umsókn frá Torfa Áskelssyni á Helgustöðum á Stokkseyri þar sem óskað var eftir heimild til að flytja til landsins 5-10 strútsegg frá Svíþjóð til klaks og ala strútana síðan upp í fjölskyldugarði með blönduðum dýrategundum. Guðni segir að í tveimur umsagnanna sé lagst gegn því af dýraverndunarástæðum að heimila innflutning. Veðurfar hér á landi henti illa fyrir strúta, bæði vegna vinda og vætu. Í umsögn embættis yfirdýralæknis segir m.a. að Norðmenn og Svíar hafi slæma reynslu af strútaeldi. Upp hafi komið vandamál vegna húð- og öndunarfærasjúkdóma, strútarnir þoli ekki rok og rigningu þar sem þeir hafi enga fitu í fjöðrunum.

Umhverfisstofnun leggst ekki gegn innflutningi strútseggjanna, að því tilskildu að þau beri ekki með sér sjúkdóma, og telur strútana ekki hafa skaðleg áhrif á íslenska náttúru.

Villiköttur í útrýmingarhættu

Umsókn fyrir innflutningi á sæði úr afrískum villiketti, Leptailurus Serval, til sæðingar á íslenskum læðum barst ráðuneytinu í október sl. Allir umsagnaraðilar leggjast gegn innflutningnum.

Embætti yfirdýralæknis segir þetta mál vera allsérstætt. Af dýraverndunarsjónarmiðum telur embættið ekki rétt að mæla með innflutningnum þar sem framkvæma þurfi keisaraskurð á læðunum til að bjarga afkvæmunum. Sérfræðinefnd um framandi lífverur segir að vegna stærðarmunar umræddra kattartegunda þurfi að skoða málið gaumgæfilega út frá sjónarmiðum um dýravernd. Villikötturinn lifir upprunalega á gresjum Afríku og í umsögn Umhverfisstofnunar kemur m.a. fram að lengd búksins geti orðið allt að einn metri, rófan allt að 45 cm löng og hæðin allt að 62 cm. Vekur stofnunin athygli á að afríski villikötturinn sé á alþjóðlegum lista tegunda villtra plantna og dýra sem eru í útrýmingarhættu. Vitað sé að kötturinn hafi lagst á alifugla og lifi einkum á hérum, rottum, íkornum, skriðdýrum og fuglum.

Óbætanlegt tjón af völdum íkorna

Í byrjun þessa árs barst umsókn Íslenskrar tækni hf. til að flytja inn nokkrar tegundir íkorna, nagdýra og marða til sölu sem gæludýr.

Embætti yfirdýralæknis telur að ekki sé tryggt að viðkomandi dýr geti ekki borið smitefni sem séu hættuleg íslenskum dýrum, ekki sé tryggt að umræddum dýrum verði ekki dreift eða þau dreifi sér út í íslenska náttúru og heldur sé ekki tryggt að þau nái útbreiðslu og valdi óbætanlegu tjóni í íslenskri náttúru og fyrir íslenskt dýralíf. Sérfræðinefnd um framandi lífverur telur að umræddar dýrategundir geti þrifist og fjölgað sér við náttúrulegar aðstæður hér á landi og valdið óæskilegum áhrifum. Bent er á að nagdýrið Chinchilla lanigera sé á lista yfir dýr í útrýmingarhættu.

Þá telur Umhverfisstofnun sig ekki geta mælt með innflutningi á marðardýrum, Mustela putoris furo, og byggir afstöðu sína á reynslu af sögu minksins á Íslandi. Umhverfisstofnun leggst hins vegar ekki gegn takmörkuðum innflutningi á rauðum íkornum, Sciurus vulgaris, sem gæludýri, gegn því að þeim verði ekki dreift út í íslenska náttúru.