19. júlí 2004 | Aðsent efni | 728 orð | 1 mynd

Hver var arkitekt Elliðaárstöðvar?

Stefán Pálsson
Stefán Pálsson
Stefán Pálsson fjallar um sögu Elliðaárstövarinnar: "Saga Elliðaárvirkjunar er margskrásett, jafnt í bókum sem blaðagreinum."
GAMLA rafstöðin við Elliðaár er í hópi fallegustu bygginga í Reykjavík. Að utan er stöðin stílhrein, með rauðu bárujárnsþaki og voldugum bogadregnum gluggum, og hafa ófáir gestir á orði að hún minni helst á kirkju. Ekki dregur úr hrifningunni þegar inn er komið, því vélasalurinn er stórglæsilegur, eins og þeir þekkja sem skoðað hafa. Elliðaárstöð var tekin í notkun sumarið 1921 og er enn starfrækt stóran hluta ársins.

Sem vonlegt er, leikur mörgum hugur á að vita hver teiknaði þessa fallegu byggingu og fær starfsfólk Orkuveitunnar oft slíkar fyrirspurnir. Vefst því þá tunga um tönn.

Flókin gáta

Saga Elliðaárvirkjunar er margskrásett, jafnt í bókum sem blaðagreinum. Yfirleitt skjóta höfundar sér hjá því að nefna berum orðum hver teiknaði húsið, heldur telja upp þá verkfræðinga sem komu nálægt framkvæmdinni. Þá er alltaf nokkuð um að verkið sé eignað mönnum sem hvergi komu þar nærri, svo sem arkitektunum Sigurði Guðmundssyni og Guðjóni Samúelssyni.

Sú hula sem er yfir höfundarsögu Elliðaárstöðvar er þeim mun undarlegri í ljósi þess að fjallað var rækilega um flest það er sneri að virkjun ánna í Tímariti Verkfræðingafélagsins á sínum tíma. Til að komast að hinu sanna verður því að grandskoða sögulegar heimildir, meðal annars byggingateikningar sem varðveist hafa.

Fyrstu drög

Haustið 1918 samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur að láta virkja Elliðaárnar. Var verkfræðingunum Jóni Þorlákssyni og Guðmundi Hlíðdal falið að vinna frumdrætti að virkjuninni, en þeir félagar höfðu áður kynnt svipaðar hugmyndir. Á grunni tillagna þeirra og kostnaðaráætlunar hóf bærinn lánsfjáröflun. Aage Broager-Christensen verkfræðingi var falið að undirbúa útboðslýsingu og var hann ásamt Guðmundi Hlíðdal eftirlitsmaður með verkinu. Jón Þorláksson reyndist hlutskarpastur í útboðinu og hlaut verkið.

Eins og gefur að skilja fór því fjarri að tillögur Jóns og Guðmundar gætu talist fullkominn uppdráttur. Elstu tiltæku teikningar sem sýna útlit stöðvarinnar eru merktar Jóni Þorlákssyni og eru þær um margt eins og lokaniðurstaðan. Hið einkennandi gluggalag vélasalarins er komið til sögunnar og byggingin um flest svipuð, þótt hlutföll ættu eftir að breytast.

Raunar má segja að teikning Jóns hafi verið mjög dæmigerð fyrir útlit orkuvera á þessum tíma. Danskar rafstöðvar sem reistar voru um svipað leyti hafa margar hverjar sömu einkenni, hvort heldur um var að ræða vatnsaflsvirkjanir eða kola- og olíustöðvar. Hvað gluggalagið varðar, minnti það raunar á Gasstöð Reykjavíkur sem risið hafði við Hlemm tíu árum fyrr eftir þýskri teikningu og árið 1922 reis við Strandgötu í Hafnarfirði rafstöð keimlík í útliti.

Nafn Aage Broagers-Christensens hefur því miður gleymst í verkfræðisögunni. Hann var einn fjölmargra útlendinga sem komu að nýsköpun íslensks samfélags á fyrri hluta tuttugustu aldar, þótt hann stoppaði hér stutt á ferðalagi sínu um heiminn. Hann starfaði meðal annars á Grikklandi, í Íran, Sýrlandi og Brasilíu uns hann lést árið 1964, 74 ára að aldri.

Broager-Christensen breytti frumdráttum Jóns að útliti Elliðaárstöðvar í þá teikningu sem unnið var eftir. Hann teiknaði einnig burðarbita í lofti stöðvarinnar, sem eru einkennandi fyrir bygginguna. Raunar má segja að hann hafi teiknað húsið að innan, ef frá eru taldir þeir þættir er sneru að vélbúnaðinum og mælatöflu. Sá hluti var í höndum Guðmundar Hlíðdals.

Af þessu má sjá, að vandasamt er að eigna einum þessara þriggja manna heiðurinn af því að hafa teiknað Elliðaárstöð. Athyglisvert er að verkfræðingarnir þrír virðast heldur ekki hafa talið það skipta neinu máli. Að þeirra mati fólst hið raunverulega afrek í ýmsum verkfræðilegum þáttum varðandi virkjun ánna, tæknilegum útreikningum og niðursetningu vélanna. Húsið sjálft, skelin utan um tækjabúnaðinn, var að þeirra mati hálfgert aukaatriði.

Erlend fyrirmynd?

Sú staðreynd að verkfræðingunum þremur fannst hönnunin á útliti stöðvarhússins tiltölulega léttvægt atriði samanborið við ýmsa aðra þætti virkjunarinnar, ýtir undir þær grunsemdir að það sé stæling á erlendri fyrirmynd, t.d. danskri rafstöð. Undirbúningur framkvæmda þurfti að ganga hratt og því enginn tími til að leggjast í mikla fagurfræðilega teiknivinnu. Ef til vill er það skýringin á að þeir félagarnir hafi ekki kunnað við að hampa útliti rafstöðvarbyggingarinnar líkt og um eigið hugverk væri að ræða?

Þá má ekki gleyma því að um 1920 var staða arkitektastéttarinnar á Íslandi önnur en síðar varð. Alþekkt var að slyngir byggingameistarar teiknuðu hús, sem mörg hver þykja til mikillar prýði í dag. Hin ört vaxandi verkfræðingastétt hampaði hins vegar þeim þáttum í starfi sínu sem ekki voru á annarra færi. Til þess töldust útreikningar, gerð stíflustæðis og vélfræðileg hönnun. Að teikna bogadregna glugga féll ekki í þann flokk, gilti einu þótt gluggarnir væru bráðfallegir og þyki það enn í dag.

Stefán Pálsson fjallar um sögu Elliðaárstövarinnar

Höfundur er forstöðumaður Minjasafns Orkuveitunnar í Elliðaárdal.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.