3. ágúst 2004 | Minn staður | 328 orð | 2 myndir

Um 8.000 manns tóku þátt í brekkusöngnum

Fíkniefnin blettur: Framkvæmdastjóri ÍBV er í meginatriðum ánægður, en segir fíkniefnamálin sem upp komu á þjóðhátíðinni sorgleg.
Fíkniefnin blettur: Framkvæmdastjóri ÍBV er í meginatriðum ánægður, en segir fíkniefnamálin sem upp komu á þjóðhátíðinni sorgleg. — Morgunblaðið/Sigurgeir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vestmannaeyjar | Milli 7000 og 8000 manns sóttu Þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum að þessu sinni og voru gestir óðum að tygja sig til heimferðar í gær. Ekki er gert ráð fyrir að fólksflutningum ljúki fyrr en í dag.
Vestmannaeyjar | Milli 7000 og 8000 manns sóttu Þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum að þessu sinni og voru gestir óðum að tygja sig til heimferðar í gær. Ekki er gert ráð fyrir að fólksflutningum ljúki fyrr en í dag. Þvert ofan í spár var veður að mestu gott um helgina, aðeins á sunnudagsmorguninn rigndi í stífum vindi.

Fyrst var blásið til þjóðhátíðar 1874 þegar Eyjamenn komust ekki á Þingvöll og urðu því að bjarga hlutunum sjálfir. Síðan hefur þjóðhátíð í Herjólfsdal verið haldin, með einhverjum hléum þó. Hátíðin byggist því á hefðum sem eru hver um sig hápunktur hátíðarinnar. Fyrsta skal nefna brennuna á Fjósakletti sem lýsir upp dalinn á föstudagskvöldinu. Á laugardaginn er það svo flugeldasýningin sem magnast upp innan um klettana sem umlykja Herjólfsdal og að lokum er það svo brekkusöngurinn sem Árni Johnsen hefur stýrt í um 30 ár. Hann var fjarri góðu gamni í fyrra en nú var hann mættur. Að þessu sinni voru um 8.000 manns í Brekkukórnum sem söng einni röddu undir stjórn Árna.

Þá má ekki gleyma hvítum tjöldum heimamanna sem eru stór hluti af gleðinni þar sem fjölskyldurnar koma sama yfir daginn en á kvöldin og nóttunni er það söngurinn sem ræður ríkjum. Allt gerir þetta þjóðhátíðina að einstakri hátíð sem fólk sækir ár eftir ár.

"Það mætti oft halda að Þjóðhátíð Vestmannaeyja væri ekki fjölskylduhátíð en svo er alls ekki. Í Herjólfsdal mætast kynslóðirnar til að skemmta sér og öðrum og til að skemmta börnunum fáum við listafólk af bestu gerð," sagði Páll Scheving framkvæmdastjóri ÍBV þegar rætt var við hann í gær. "Vel heppnuð barnadagskrá, endurkoma Egósins hans Bubba og Árna Johnsen og ánægðir gestir er það sem er manni kannski efst í huga eftir helgina. Allt fór þetta vel fram og eins og alltaf voru gestir okkar til mikillar fyrirmyndar. Auðvitað er sorglegt að sjá öll þessi fíkniefnamál, þau eru því miður orðin hluti af okkar samfélagi en fjöldinn sýnir líka öflugt eftirlit og því ber að fagna," sagði Páll.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.