Kári Árnason, leikmaður Víkings,  var kallaður í landsliðshóp Íslands fyrir leikinn gegn Ítalíu.
Kári Árnason, leikmaður Víkings, var kallaður í landsliðshóp Íslands fyrir leikinn gegn Ítalíu. — Morgunblaðið/ÞÖK
KNATTSPYRNUMAÐURINN efnilegi Kári Árnason úr Víkingi hefur vakið mikla athygli í sumar fyrir góða frammistöðu í úrvalsdeild karla en hann var valinn í 22 manna landsliðshóp fyrir vináttulandsleikinn gegn Ítölum á Laugardalsvelli 18. ágúst næstkomandi.

KNATTSPYRNUMAÐURINN efnilegi Kári Árnason úr Víkingi hefur vakið mikla athygli í sumar fyrir góða frammistöðu í úrvalsdeild karla en hann var valinn í 22 manna landsliðshóp fyrir vináttulandsleikinn gegn Ítölum á Laugardalsvelli 18. ágúst næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn sem Kári, sem er 21 árs, er valinn í landslið Íslands en Kári á engan landsleik að baki með yngri landsliðunum. Kári sagði við Morgunblaðið að það væri móður sinni að þakka að hann æfði knattspyrnu því hún hefði neytt hann til að mæta á fótboltaæfingar þegar hann var yngri.

Ég fæddist í Gautaborg í Svíþjóð og átti heima þar þangað til ég var fimm ára en þá fluttist ég ásamt fjölskyldu minni til Íslands. Frá því ég var sex ára gamall hef ég búið í Fossvoginum og ég hef því alist upp sem Víkingur. Þegar ég var lítill var ég alls ekki hrifinn af fótbolta og það var mamma sem neyddi mig að mæta á fótboltaæfingar hjá Víkingi því hún vildi að ég myndi eignast einhverja vini í hverfinu. Pabbi er mikill Valsari og reyndar öll ættin og hann vildi senda mig á æfingar hjá Val en mamma tók það ekki í mál. Það margborgaði sig greinilega hjá mömmu að senda mig á æfingar hjá Víkingi því ég er kominn í landsliðshópinn og það má segja að það sé mömmu að þakka," segir Kári en hann hefur alltaf æft með Víkingum fyrir utan hálft ár í þriðja flokki þegar hann lék með Val.

"Ég gerði þau mistök á eldra ári í þriðja flokki að skipta yfir í Val en ég sá fljótt að ég hafði gert mistök og ég var kominn aftur í Víking hálfu ári síðar. Ég hefði nú aldrei skipt yfir í Val nema vegna gríðarlegs þrýstings frá pabba og fleirum í fjölskyldunni en Víkingur hefur alltaf verið mitt félag," segir Kári en draumur hans er að komast í atvinnumennskuna.

Takmarkið að leika erlendis

Kári var í byrjun ágúst í Gautaborg þar sem hann dvaldi við æfingar í boði félagsins í nokkra daga og stóð sig vel. "Það er dálítill Svíi í mér og ég styð alltaf Svíþjóð á stórmótum. Ég skil ennþá dálítið í sænskunni og ég væri ekki lengi að ná tökum á henni aftur ef ég byggi í Svíþjóð. Mér gekk ágætlega þegar ég æfði hjá Gautaborg og það væri gaman að leika með liðinu. Ég býst við að einhverjir frá félaginu komi og fylgist með mér í leiknum gegn Keflavík á föstudaginn og það er aldrei að vita hvað gerist í framhaldinu. Það væri rosalega gaman að komast í atvinnumennskuna og takmarkið er að leika erlendis næsta vetur."

Ætlaði að hætta í fótbolta

Um tíma leit ekki út fyrir að Kári myndi eiga möguleika á að spila í atvinnumennsku því hann ætlaði að hætta að leika knattspyrnu þegar hann var á fyrsta ári í meistaraflokki. "Ég var búinn að ákveða að hætta í fótboltanum vegna þess að ég hafði verið mikið meiddur. Ég skipti hins vegar um skoðun þegar ég hugsaði minn gang og ég sá fram á að það yrði ömurlegt að vera ekki að æfa neitt og ég ákvað því að halda áfram í fótboltanum," segir Kári en hann telur að hann leiki mun betri knattspyrnu í sumar en áður. "Í fyrra vissi ég alltaf að ég gæti gert miklu betur. Það sem hefur breyst hjá mér er að ég er í miklu betra formi en áður og ég geri hlutina miklu einfaldar. Þetta hefur valdið því að ég hef leikið mun betur í ár en áður og nú hef ég verið verðlaunaður með sæti í landsliðshópnum."

Brá rosalega að vera valinn í landsliðið

Kári frétti það hjá vini sínum að hann hefði verið valinn í landsliðið og það kom Kára mjög á óvart. "Vinur minn hringdi í mig og óskaði mér til hamingju með að vera kominn í landsliðið. Ég fór þá á Netið og sá að ég hafði verið valinn í hópinn. Ég hef ekkert heyrt í landsliðsþjálfurunum eða frá KSÍ. Ég hreinlega veit ekki hvernig þessi landsliðsmál ganga fyrir sig því ég hef aldrei verið valinn áður. Mér brá rosalega þegar ég komst að því að ég hafði verið valinn í A-landsliðið en það er rosalega gaman."

Við ætlum ekki að falla

Víkingar byrjuðu Íslandsmótið mjög illa en þeir tóku sig saman í andlitinu og eru um þessar mundir í 7. sæti deildarinnar. "Hugur minn er allur hjá Víkingum um þessar mundir og við ætlum okkur að halda sæti okkar í deildinni, annað kemur ekki til greina. Við erum með ungt lið og venjulega eru aðeins tveir til þrír leikmenn í byrjunarliðinu sem eru eldri en 22 ára. Vegna þess hversu ungir við erum held ég að það sé annar "mórall" hjá okkur en öðrum liðum og ég tel að það hjálpi okkur í baráttunni," sagði Kári Árnason, sem á alnafna sem hefur leikið með landsliðinu. Það er Akureyringurinn Kári Árnason, sem lék ellefu landsleiki á árunum 1961 til 1971.

Eftir Atla Sævarsson