Björgólfur Guðmundsson
Björgólfur Guðmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Umsvif feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar eru orðin umtalsverð í íslensku viðskiptalífi þrátt fyrir að aðeins séu örfá ár liðin frá því að bera fór á fjárfestingum þeirra hér á landi.

Umsvif feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar eru orðin umtalsverð í íslensku viðskiptalífi þrátt fyrir að aðeins séu örfá ár liðin frá því að bera fór á fjárfestingum þeirra hér á landi.

Það var í tengslum við útrás lyfjafyrirtækisins Pharmaco, sem nú heitir Actavis, að feðgarnir fóru fyrst að kveðja sér hljóðs hér á landi. Árið 1999 keyptu þeir 45% í búlgarska lyfjaframleiðandanum Balkanpharma ásamt Pharmaco. Vel heppnaður samruni Pharmaco við Balkanpharma árið 2000 í kjölfar aðkomu Björgólfanna og samstarfsmanna þeirra að fyrirtækinu markaði þáttaskil í íslensku atvinnulífi. Á tveimur árum gerðu þeir Pharmaco að verðmætasta fyrirtæki sem skráð var á íslenskum hlutabréfamarkaði og verð hlutabréfa í félaginu hækkaði langt umfram önnur hlutabréf á markaði. Pharmaco-ævintýrið varð þannig til að beina sjónum manna að feðgunum en eignarhlutur þeirra í Pharmaco var á þessum tíma orðinn um 35%.

Landsbankinn næstur

Gengi bréfa í Pharmaco var um miðjan mars 2000, þegar feðgarnir keyptu fyrst 15% hlut í félaginu, í kringum 35 krónur á hlut og var gengið komið í 81,5 krónur í apríl 2003, hafði rösklega tvöfaldast. Þá voru gefin út jöfnunarhlutabréf þannig að nafnverð hlutafjárins varð margfaldað með fimm. Síðan þá hefur gengið ríflega þrefaldast, hækkað úr 16,5 í 52 krónur.

Það er skammt stórra högga á milli í fjárfestingum Björgólfanna. Á árinu 2002 lýstu þeir áhuga á að kaupa kjölfestuhlut íslenska ríkisins í Landsbanka Íslands sem varð til þess að líf hljóp í einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbanka Íslands. Þá höfðu þeir, ásamt Magnúsi Þorsteinssyni, hagnast mjög á sölu bjórverksmiðju sem þeir félagar byggðu upp í Rússlandi. Sölusamningurinn var á þeim tíma talinn einn stærsti viðskiptasamningur sem Íslendingar hefðu gert.

Kjölfestuhlutur ríkisins í Landsbankanum, sem nam 45,8% hlutafjár, var sem kunnugt er seldur feðgunum og Magnúsi Þorsteinssyni fyrir 12,3 milljarða króna sem þýðir að bankinn var metinn á um 27 milljarða króna. Gengi hlutabréfa í Landsbankanum var 3,5 krónur á hlut þegar þeir félagar óskuðu eftir að kaupa bankann en meðalgengi í kaupum kjölfestuhlutarins var 3,91. Í dag er gengi á hlutabréfum Landsbankans um 15 krónur á hlut og hefur því nær fjórfaldast á tveimur árum. Markaðsvirði bankans er nú í kringum 117 milljarðar króna.

Feðgarnir hafa sagt að þeir muni eiga kjölfestuhlut í bankanum í 4-5 ár og ef áfram heldur sem horfir ætti þessi fjárfesting að verða þeim nokkuð arðbær þegar upp er staðið. Reyndar skiptu þeir feðgar með sér eignum sínum í Pharmaco og Landsbankanum sumarið 2003. Björgólfur eldri jók við hlut sinn í Landsbankanum á kostnað Björgólfs yngri og Björgólfur yngri keypti þann eldri út úr Pharmaco.

Straumsværingar

Um svipað leyti keyptu þeir 14% eignarhlut í Straumi og með 20% eign Landsbankans í félaginu þótti líklegt að þeir næðu þar undirtökum og hygðust jafnvel sameina Straum Landsbankanum. Straumur átti þá meðal annars stóra hluti í Eimskipafélaginu og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna en Landsbankinn átti einnig stóra hlutdeild í þessum félögum. Björgólfur Guðmundsson lýsti því hins vegar yfir að markmiðið með kaupunum væri að losa um flókin eignatengsl í félögum, rjúfa stöðnun og hleypa lífi í íslenska verðbréfamarkaðinn.

Íslandsbanki vildi, sem kunnugt er, ekki una því að Björgólfsmenn hefðu slík ítök í gegnum Straum og varð úr að hlutir þeirra og Landsbankans í Straumi voru seldir. Um leið eignuðust Landsbankinn og tengdir aðilar ráðandi hlut í Eimskipafélagi Íslands. Þegar þetta var, í september 2003, var gengi bréfa í Eimskipafélaginu 7,3 krónur á hlut. Síðan hefur félaginu verið breytt, sjávarútvegshluti þess seldur og nafni móðurfélagsins breytt í Burðarás en hlutverk þess er nú að fyrst og fremst á sviði fjárfestinga. Gengi hlutabréfa í Burðarási er í dag 15,6 krónur og hefur því ríflega tvöfaldast á rúmu ári.

Rétt að byrja

Það er öllum augljóst að Björgólfsfeðgum og samstarfsmönnum þeirra hefur á skömmum tíma tekist að losa um þær hömlur og valdatafl sem einkenndu íslenskt viðskiptalíf. Björgólfur eldri orðaði það sjálfur þannig að ýmis gamalgróin fyrirtæki hefðu gengið í endurnýjun lífdaga með nýjum forystumönnum. Hann segir breytingarnar þó rétt að byrja.

Hann hefur jafnframt sagt að bankar eigi að hafa frumkvæðið að umbreytingum á hlutabréfamarkaði og Landsbankinn sé þar á meðal. Mikilvægustu sóknarfærin séu hins vegar í útlöndum.

Í takt við þá yfirlýsingu keypti Burðarás meirihluta hlutafjár í fjárfestingarfélaginu Kaldbak í síðasta mánuði. Megintilgangur samrunans var sagður að búa til öflugt fjárfestingarfélag sem hefði getu til að takast á við stór verkefni erlendis.

Nokkrum dögum síðar fór eignarhlutur Landsbankans og Burðaráss í Straumi í 24% en um leið varð Straumur stærsti hluthafinn í Íslandsbanka. Talið var að nú létu Björgólfsfeðgar til skarar skríða í sameiningu Landsbankans og Íslandsbanka. Markmiðið með kaupunum var hins vegar sagt vera til að auka samstöðu Straums, Landsbankans og Burðaráss, auka fjárfestingargetu og dreifa áhættu þeirra í stærri verkefnum hér á landi og erlendis. Haft var eftir Björgólfi yngri að sameining Burðaráss og Straums væri hins vegar ekki á dagskrá.

Sölusamtökin næst?

Markmið feðganna virðast því skýr og þeim fylgt fast eftir. Hvar þeir bera niður næst er því milljónaspurningin. Benda má á að Landsbankinn og Burðarás eiga nú yfir 50% hlutafjár í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Straumur á um 17% til viðbótar. Sameining félagsins við SÍF er fýsilegur kostur m.a. með sókn á erlenda markaði í huga. Tilraunir til slíks samruna hafa fram til þessa mistekist en það skyldi þó aldrei vera að Björgólfsfeðgar næðu því marki.

soffia@mbl.is