STEFNT er að sameiningu Kaupthing Bank A/S í Danmörku og danska bankans FIH, sem KB banki keypti nýverið. Sigurður Einarsson, stjórnarformaður KB banka, segir að ekki sé endanlega búið að ganga frá samrunanum en líklegt sé að af honum verði og þá fyrir nk. áramót. Við samrunann flyst starfsfólk Kaupthing Bank, um 30 manns, yfir í FIH sem hefur á að skipa um 170 manns.
Sigurður hefur áður sagt að eftir kaupin á FIH sé Danmörk orðin, mælt bæði í tekjum og í efnahagsreikningi, langstærsta starfsemi bankans. Fókus KB banka verði því töluvert þar á næstunni.
KB banki tilkynnti á þriðjudag um sölu á 80 til 110 milljónum nýrra hluta í bankanum til fagfjárfesta. Financial Times fullyrðir í frétt á vefsíðu sinni í gær að fjármagn það sem fæst úr hlutafjáraukningunni eigi að nota til yfirtöku á fyrirtækjum í Bretlandi og Svíþjóð. Breski markaðurinn bíður átekta eftir yfirtökutilboði KB banka í breska bankann Singer & Friedlander en Financial Times nefnir einnig yfirtöku á Carnegie-bankanum í Svíþjóð.
Sigurður segir markmiðið með hlutafjáraukningunni að styrkja eiginfjárgrunn bankans og gera hann tilbúinn til frekari kaupa, ef til þess komi. Hann tjáir sig ekkert um hugsanlega yfirtöku á Singer & Friedlander: "Það er ekkert nýtt um það að segja." Og hvað varðar yfirtöku á Carnegie segir hann: "Við höfum aldrei sýnt Carnegie áhuga."