"Ég skora á stjórnvöld að banna veiðar á síld og loðnu í flottroll.

"Ég skora á stjórnvöld að banna veiðar á síld og loðnu í flottroll. Þær eru ekkert annað en rányrkja og það er hryllileg tilhugsun ef menn ætla að leggja í flottrollsveiðar á norsk-íslenzku síldinni, sem nú er byrjuð að veiðast aftur við landið eftir marga áratugi," segir Gísli Jóhannesson, skipstjóri.

Gísli er fyrir löngu hættur á sjónum, en hann tók þátt í síldarævintýrinu á sínum tíma eins og nánast allir skipstjórar á hans reki. Gísli segir að hann sé góðu sambandi við þá sem eru í "hólnum" núna og margir þeirra segi sér að við veiðar á loðnu drepist jafnmikið af loðnu og veiðist. Hann segist líka muna það vel þegar Jakob Jakobsson, fiskifræðingur, sagði mönnum hvað síldin þyldi litlar hreisturskemmdir. Það þyrfti ekki nema lítið af hreistrinu að skemmast svo síldin dræpist. "Það er alveg ljóst að ætli menn sér að fara að böðlast á síldinni með flottrolli, drepa þeir miklu meira en þeir veiða og stofninn hrynur strax á næstu tveimur til þremur árunum," segir Gísli Jóhannesson.