HÆTT er við, að staða Ísraels á alþjóðavettvangi muni versna á komandi árum og ekki ólíklegt, að farið verði að líta það sömu augum og Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar.

HÆTT er við, að staða Ísraels á alþjóðavettvangi muni versna á komandi árum og ekki ólíklegt, að farið verði að líta það sömu augum og Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar. Kom þetta fram í útvarpi ísraelska hersins í gær þar sem vitnað var í leyniskýrslu ísraelska utanríkisráðuneytisins.

Í skýrslunni, að sögn útvarpsins, er varað við því, að haldi átökin milli Ísraela og Palestínumanna áfram, sé sennilegt, að samskiptin við Evrópusambandið muni versna mikið. Svo geti jafnvel farið, að hætt verði að líta á Ísrael sem ríki meðal ríkja og hugsanlegt, að því verði útskúfað og beitt refsiaðgerðum.

Í skýrslunni segir einnig, að sögn, að versni samskipti Ísraels og Evrópusambandsins muni það hafa alvarlegar, pólitískar og efnahagslegar afleiðingar fyrir landið. Þá er því spáð í skýrslunni, að Rússland og Asíuríkin muni treysta samskipti sín við arabaríkin á kostnað Ísraels.

Sagði útvarp hersins, að Silvan Shalom utanríkisráðherra hefði fengið skýrsluna í hendur en talsmaður hans vildi í gær ekkert um málið segja.

Jerúsalem. AFP.