Sönglög, aríur og dúettar eftir Mozart, Verdi, Britten, Brahms, Wolf, Schubert, Schumann og Humperdinck. Negrasálmar í úts. Burleighs. Valgerður Guðnadóttir sópran, Inga Stefánsdóttir messósópran, Hrólfur Sæmundsson barýton og Steinunn B. Ragnarsdóttir píanó. Sunnudaginn 10. október kl. 16.

EF til vill átti enska yfirskriftin "Black Mozart" einkum að höfða til ferðamanna. En hvort sem rétt er til getið eða ekki, þá voru síðdegistónleikar ofangreindra listamanna í Iðnó á sunnudag bæði ánægjulegir og þokkalega vel sóttir, jafnvel þótt lítið bæri á erlendum áheyrendum.

Valgerður reið á vaðið með gustmikilli aríu Despínu úr Così fan tutte Mozarts um karla og dáta, og tók síðar tvö ljóðasöngslög eftir Schumann (Widmung) og Hugo Wolf (um kærastann í Pennu) öruggum tökum, studd glæsiherpluðum píanórunum í Wolf. Hrólfur söng Di Provenza il mar úr La Traviata heldur beint af augum, enda í það hraðasta; nokkru síðar Feldeinsamkeit e. Brahms við dáfallegt legató (en fullbratta styrkmótun) og þarnæst Auf ein altes Bild Schuberts með sérlega innlifaðri textatúlkun. Inga Stefánsdóttir söng fyrst fyrir munn svívirtrar Lucretiu um raun hennar úr óperu Brittens. Seinna söng hún Schubertljóðið Dauðinn og stúlkan og Gröf Anakreons eftir Wolf af eftirtektarverðri innlifun, þó að röddin virtist enn eiga eftir að þéttast, enda fókusinn svolítið laus neðra og víbratóið frekar hvellt á sterkustu tónum. Danskennsludúett hennar í buxnahlutverki á móti Valgerði úr Hans og Grétu Humperdincks var hins vegar barnslega léttur (þrátt fyrir smá minnisgloppu), og dúett Ingu og Hrólfs í gervi Dorabellu og Guglielmos úr Così daðrandi kankvís við hæfi.

Frelsingjasonurinn Henry Thacker Burleigh (1866-1949) var fyrstur þeldökkra Bandaríkjamanna til að hljóta tónlistarmenntun, og starfaði m.a. hjá Dvorák í New York. Upp úr sjö negrasálmaútsetningum hans þetta kvöld stóðu einkum frábær textatúlkun Ingu á Steal away, dúett þeirra Hrólfs í Sometimes I feel like a motherless child, og miðilsvæn ("idiomatic") slétttónameðferð Valgerðar á Weepin' Mary. Hrólfur tjaldaði óspörum tignarkrafti í Ride om King Jesus. Hann var einnig ábyrgur fyrir tví- og þrírödduninni í Motherless child og Go down Moses, og var síðargetinn terzett kyrjaður af sannkölluðu alefli við eldheitar undirtektir hlustenda á fæti.

Ríkarður Ö. Pálsson