SVEITARSTJÓRN Ölfuss mun láta loka Sorpstöð Suðurlands 25. október nk. ef ekki næst viðunandi samkomulag milli sveitarstjórnarinnar og Sorpstöðvarinnar þar sem stöðin skuldbindi sig til að hætta tafarlaust að urða í ólöglegri hæð.

SVEITARSTJÓRN Ölfuss mun láta loka Sorpstöð Suðurlands 25. október nk. ef ekki næst viðunandi samkomulag milli sveitarstjórnarinnar og Sorpstöðvarinnar þar sem stöðin skuldbindi sig til að hætta tafarlaust að urða í ólöglegri hæð. Þetta kom fram á fundi sem sveitarstjórn Ölfuss stóð fyrir með öllum aðildarfélögum Sorpstöðvar Suðurlands fyrr í vikunni.

"Við boðuðum þarna alla kjörna fulltrúa vegna þess að við vildum gera þeim grein fyrir því hvað er að gerast og hvers vegna við erum knúnir til aðgerða, sem okkur raunar ber samkvæmt skipulags- og byggingarlögum," segir Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Ölfuss.

Of hátt urðað

Að sögn Ólafs á málið sér langan aðdraganda, en tíu ár eru síðan samþykkt var deili- og aðalskipulag sem nær yfir það svæði þar sem Sorpstöð Suðurlands starfar. "Í skipulaginu er kveðið á um að ekki megi urða í meira en 5 metra hæð yfir landhæð. Árið 1998 var farið að gera athugasemdir við það að urðunarreinar Sorpstöðvarinnar væru á mörgum stöðum komnar allverulega yfir leyfilegt mark." Eftir nokkur bréfaskipti segir Ólafur ákveðin kaflaskipti hafa orðið í málinu 16. febrúar sl. "Þegar við sendum stjórn Sorpstöðvarinnar bréf þar sem við gerðum henni ljóst að við yrðum að grípa til aðgerða ef hún hætti ekki að urða í ólögmætri hæð. Í bréfinu var stöðinni gefinn frestur til 1. ágúst til að hætta þessari urðun og í svarbréfi frá Sorpstöðinni frá 11. mars sögðust forsvarsmenn stöðvarinnar tafarlaust mundu fara eftir tilmælum okkar."

Ekki farið að tilmælum

Að sögn Ólafs hefur Sorpstöðin hins vegar ekki enn farið að tilmælum sveitarstjórnarinnar og er enn að urða í ólögmætri hæð. "Við sættum okkur auðvitað ekki við að Sorpstöðin fari ekki að gildandi skipulagi og standi ekki við fyrri samþykktir. Staðan er því sú að við munum láta loka stöðinni 25. október nk. ef ekki næst viðunandi samkomulag. Ástæða þess að við héldum fund með öllum fulltrúum sveitarfélaganna sem standa að Sorpstöðinni er sú að við teljum ljóst að stjórn Sorpstöðvarinnar muni ekki ein og sér ganga til samninga vegna þess að við erum búnir að reyna það."

Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Suðurlands, sagði að reynt yrði að finna á þessu lausn sem væri viðunandi fyrir báða aðila.