LARS Lägerback, þjálfari sænska landsliðsins, var gríðarlega ánægður með fyrri hálfleikinn hjá sínum mönnum enda hafði hann aldrei látið sig dreyma um fjögur mörk í fyrri hálfleik gegn varnarsinnuðu íslensku liði.

Við vissum að íslenska liðið myndi leika vörnina aftarlega og vorum undir það búnir að vera þolinmóðir í sóknarleik okkar. Það var mikið rými á köntunum og á miðsvæðinu en við náðum ekki að skora fyrr en eftir hraða sókn eftir að íslenska liðið hafði fært sig framar á völlinn. Það var dagskipunin - að sækja hratt með fáum sendingum og mörkin létu ekki á sér standa," sagði Lägerback en hann sagðist geta hughreyst stuðningsmenn íslenska liðsins með því að segja að liðið væri mun sterkara en lið Möltu sem Svíar unnu 7:0 á útivelli á dögunum.

"Í íslenska liðinu er margir góðir leikmenn en þessi leikur var ekki eins og við áttum von á. Minna um harðar rimmur úti á vellinum og við fengum að ráða ferðinni - sérstaklega í fyrri hálfleik. Í þeim síðari var annar bragur á okkar liði - enda ekki um annað að ræða en að halda fengnum hlut og sækja þegar færi gafst til. Íslenska liðið fór framar á völlinn í síðari hálfleik en við vorum ekki eins ákveðnir í að sækja hratt og skiptum líka um leikmenn sem áttu við smávægileg meiðsli að stríða," sagði Lägerback.

Skyndisóknir eru okkar styrkur

Fredrik Ljungberg, leikmaður enska meistaraliðsins Arsenal, fór af velli á 57. mínútu en hann sagði að lítilsháttar meiðsli í baki væru að hrjá hann. "Þetta gekk mun betur en við áttum von á. Sendingarnar voru nákvæmar þegar við sóttum hratt upp völlinn og við áttum auðveldara með að sækja þegar íslenska liðið fór upp úr "skotgröfunum" tvisvar sinnum í röð í fyrri hálfleik. Okkur finnst slíkar aðstæður bestar - að beita skyndisóknum," sagði Ljungberg. "Mörkin komu á góðum tíma fyrir okkur og í síðari hálfleik var þetta bara formsatriði og menn voru meira að hugsa um að komast heilir frá leiknum. En íslenska liðið kom á óvart með því að leika vörnina aftarlega og við fengum mun meiri tíma með boltann en við áttum von á," sagði Ljungberg.