Ólafur Mixa
Ólafur Mixa
Ólafur Mixa fjallar um kennaraverkfallið: "Þið hafið semsé aðlagað ykkur kjararýrðinni svo síðustu áratugi, að segja má að þið séuð orðin sérfræðingar í að vinna vandasamt starf af hugsjón."

Ágætu kennarar. Ég er einn af þeim mörgu, sem finnst sjálfsagt að þeir, sem taka við litlu krílunum okkar mismunandi mikið ofáreitisrugluðum og reyna að flokka alla þá óreiðu til að gefa þeim veganesti útí lífið, þ.e. þið, grunnskólakennarar, - mér finnst að þið eigið auðvitað að búa við mannsæmandi laun. Og að þið gerið það ekki. En við erum lítil þjóð. Í mörg horn að líta. Því miður. Viljinn er reiðubúinn, en... Okkar góðu stjórnendur hafa margoft lýst yfir vilja sínum til "metnaðarfullrar menntastefnu", minnt á "mannauðinn", sem sé okkar mesta framtíðarafl, æskuna sem grundvöll framtíðar osfrv. En auðvitað verður að forgangsraða. Það hljótið þið að skilja. Fyrst þurfum við að komast í öryggisráðið. Það kostar nú sitt. Niðurgreiða rafmagn fyrir fjölþjóðafyrirtæki, koma sterkt inn í alþjóðavæðinguna. Jarðgöng. Jafnvel háskólanám í hvert sveitarfélag. Grunnskólinn verður því miður að bíða. Því klappa fyrirmenn sig utaná lærin og finna, að enginn aur er í vösunum. "Tú badd". Öll erum við samt auðvitað sammála um að þið þurfið að fá mannsæmandi laun. Einsog við erum alltaf að segja, öll. Alltaf, látlaust. En allt hefur sinn tíma. Nú hef ég raunar verið að blanda ríkisstjórninni í þetta, alsaklausri. Henni kemur þetta mál raunar alls ekki við, einsog hún hefur margoft bent á. Til hvers að gera út harðsnúið og þaulæft samningalið til að plata sveitarfélögin að taka að sér grunnskólann án þess að þurfa sjálft að borga brúsann? Þetta var hrein snilld, ekki sízt vegna þess að það tókst þrátt fyrir að einhverjir hafi varað sveitarfélögin við. Við verðum öll að skilja, að varla er unnt að ætlast til að ríkið bakki útúr svo sætum sigri. Það getur því með löglegum rétti þvegið hendur sínar af allri ábyrgð í augsýn barnafjöldans. Auk þess sem það er raunar búið að gera sína skyldu við metnaðarfulla menntastefnu: semja um betri kjör við framhaldskólakennara. Að vísu má þá ekki gleyma, að nemendur þeirra eru yfirleitt amk. tvöfalt stærri og þyngri en grunnskólabörn. Kennslan hlýtur þá að vera þeim mun þyngri. Fram hjá þessu er erfitt að horfa. Auk þess sem opinber kostnaður við þessa þungu kennslu er ekki allur sem sýnist. Þegar ríkið segir alþjóð, einsog svo oft, að kröfur kennara, hjúkrunarfræðinga, líffræðinga osfrv. leiði af sér td. einn milljarð í útgjöld, segir það ósatt (óviljandi, auðvitað). Amk helmingurinn af því rennur vitaskuld beint aftur í ríkiskassann og obbinn af því jafnvel, í staðgreiðslukerfi, án þess að launþeginn hafi nokkurn tíma séð þennan pening "sinn". Afgangurinn er neyzluskattur af mögulegum launabótum, sem notaðar eru til að geta veitt sér eitthvað. Þær renna því beint í veltuna öllum góðum markaðssinnum til mikillar gleði, en ekki til Bahama eða Lúxemborgar einsog um einhvern kvótaaðal væri að ræða. Svo það er sök sér að semja við framhaldsskólakennara, enda eru þeir fullkomlega vel að því komnir. Ef bæjarfélög hins vegar semja við grunnskólakennara um eitthvert smáræði fyrir þeirra léttu kennslu, er það enn ríkið sem fær lungann úr því skattfé, sem af því hlýzt. Það hefði td. getað leyft bæjarfélögunum að eiga þann skattpening án þess að skaðast nokkuð sjálft. En, sem sagt, grunnnám í landinu er ekki þess sjóhattur. Búið að semja fjárlög. Basta. Ef svo samið yrði við ykkur, myndu aðrar stéttir, allt þetta fólk, sem er sammála um að launa eigi hið vandasama kennarastarf vel, miða sig við ykkar launabætur og fara fram á hið sama. Þetta þekkjum við auðvitað. Þá færi allt í bál og brand. Eðlilegar kröfur. Fordæmisgildi kennarasamninga banvænt. Þetta verðiði að skilja. Svona er lífið. Segir ekki skynsemin, að betra sé að ganga hægt um gleðinnar dyr? Hagfræðideild Háskóla Íslands kynnti fyrir nokkru þær rannsóknaniðurstöður, að grunnskólakennarar, þið, væru eina stéttin meðal háskólafólks, sú eina, sem einskis arðs nyti af háskólanámi sínu. Bara ánægjunnar. Þið hafið semsé aðlagað ykkur kjararýrðinni svo síðustu áratugi, að segja má að þið séuð orðin sérfræðingar í að vinna vandasamt starf af hugsjón. Hvers vegna að breyta þessu? Ef þið hættuð nú bara. Þá mynduð þið að vísu enn dragast afturúr öðrum, en yfirvöld yrðu býsna glöð og kannski velviljaðri en nokkru sinni fyrr. Og hugsjón ykkar myndi stækka enn! Hví eiga sveitarfélög að græða enn meira á því að þurfa ekki að greiða ykkur neitt? Svo færuð þið bara aftur í verkfall eftir 2 ár, verr sett en nokkru sinni fyrr og farin að borga með ykkur í háskólann, en þá myndu líka allir verða enn sannfærðari um að auðvitað eigi að greiða kennurum góð laun ... osfrv. Ha? Ef ykkur hinsvegar líst ekkert á þetta skuluð þið bara halda þessu áfram. Þið um það. Berjast til þrautar. Ef þið endilega viljið.

Ólafur Mixa fjallar um kennaraverkfallið

Höfundur er læknir.